149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að hæstv. samgönguráðherra viðurkennir að um almenna skattlagningu eigi að vera að ræða sem kæmi í veg fyrir olíu- og bensínskatt, sem eigi þá ekki að falla niður þegar vegaframkvæmdum ljúki eins og kemur fram í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar. Þar er talað um að þessi gjöld falli niður þegar framkvæmdum ljúki. Hvernig fer saman hljóð og mynd hér þegar hæstv. samgönguráðherra segir að um sé að ræða nýja skatta sem verði að koma inn vegna þess að aðrir skattar falli niður?

Árið 2019 fær ríkið 80 milljarða vegna bíla en notar 29 milljarða, 36%, í vegina. Getum við kannski verið sammála um að nota þá skatta sem ríkið fær nú þegar af almenningi í landinu, algjörlega óháð tekjum? Í rauninni er kostulegt að tala um að á morgun ætli ríkisstjórnin að kynna skattalækkanir á þá efnaminnstu í sömu viku og talað er um skattahækkanir á þá efnaminnstu, algjörlega óháð tekjum? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fara (Forseti hringir.) að því að tryggja jöfnuð í landinu með svona skattlagningu?