149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að mér endist mínútan til að vinda ofan af öllum þeim rangfærslum sem hv. þingmaður fór fram með hér, en ég ætla að reyna.

Í fyrsta lagi er ekki verið að tala um almennan skatt. Verið er að tala um möguleika á að fara í flýtiframkvæmdir sem myndu standa undir sér með þeim hætti, tilteknar framkvæmdir kosta tilteknar upphæðir. Og þeir sem greiða fyrir afnotin af þeim munu greiða fyrir uppbygginguna að því loknu, alveg eins og ég sagði í máli mínu. Ef það hefði verið gert á 15 eða 20 árum hefði það verið það gert með þeim hætti.

Við þurfum hins vegar á sama tíma að horfa til þess að við erum að lækka álögur á bifreiðaeigendur úr 18–19 milljörðum af eldsneytisgjöldum, hugsanlega niður í 9 milljarða. Það eru þeir fjármunir sem hafa verið markaðar tekjur til uppbyggingar í vegamálum, ekki 80 milljarðar, sem er virðisaukaskattur af alls konar hlutum, varahlutum et cetera. Ætli það séu ekki 46 milljarðar sem eru raunverulega gjöld sem koma af bílum. Af því hafa farið um 73% á síðasta ári til vegaframkvæmda, sem er sirka í hámarkinu (Forseti hringir.) ef við horfum til síðastliðinna tíu ára í hlutfalli, hefur farið hækkandi. Við höfum því staðið við það. En ég hef aldrei talað um að fara með þann 80 milljarða virðisaukaskatt af varahlutum og innflutningi á bílum og vörugjöldum sem markaðar tekjur til uppbyggingar vegakerfis. Það er einfaldlega rangt, hv. þingmaður.