149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og óska honum jafnframt til hamingju með son sinn á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Honum kippir greinilega í kynið, hvort kynið sem það er, jafnvel bæði. En hv. þingmaður talaði um elstu flokkana á Alþingi sem væru að sameinast í kyrrstöðupólitík og að hann myndi ekki gefa neinn afslátt af þeim málum sem eru Viðreisn hjartans mál. Eins og ég hef skilið málflutning þingmanna Viðreisnar á þingi eru hjartans málin innganga í ESB og þar með nýr gjaldmiðill, uppboð á aflaheimildum og þar með samþjöppun í sjávarútvegi og breytingar á kerfum eins og landbúnaðarkerfinu.

Nú hefur hv. þingmaður og hans flokkur einu sinni setið í ríkisstjórn eftir að hann kom á þing og ekkert af þessum málum var þar í stjórnarsáttmála. Ég spyr því hv. þingmann: Mun Viðreisn halda áfram að gefa afslátt af sínum hjartans málum, þessum stóru málum, ef ríkisstjórnarsamstarf er í boði við til að mynda Sjálfstæðisflokkinn eins og var síðast 2016–2017? Mun flokkurinn halda áfram að gefa afslátt? Sú yfirlýsing kom fram hjá formanni flokksins áðan að Viðreisn gæfi ekki neinn afslátt. Hvenær sér hv. þingmaður fyrir sér að þessir draumar Viðreisnar um prinsippmálin náist í gegn miðað við þá flokka sem eru á Alþingi í dag?