149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

hvalveiðar.

[13:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hyggist leyfa áframhaldandi stórhvalveiðar á þessu ári. Með stórhvalveiðum á ég við veiðar á langreyðum, en 844 hvalir af þeirri tegund hafa verið veiddir af fyrirtækinu Hval hf. hér við land síðan veiðar á langreyðum hófust að fullu í atvinnuskyni sumarið 2009, fyrir tíu árum. Árið 2018 var síðasta árið af fimm ára tímabili þar sem kvótar höfðu verið gefnir út af stjórnvöldum til veiða á langreyðum.

Ef halda á áfram veiðunum úr þessum hvalveiðistofni á komandi sumri verður ríkisstjórnin að gefa út ný veiðileyfi og kvóta vart seinna en nú í sumarbyrjun. Hæstv. forsætisráðherra sagði á síðasta ári, bæði við fjölmiðla og í ræðustóli Alþingis, að ákvörðun um úthlutun nýrra hvalveiðileyfa yrði ekki gefin út fyrr en úttekt á umhverfisáhrifum, dýraverndunarsjónarmiðum, samfélagslegum áhrifum og áhrifum á íslenskt efnahagslíf hefði verið gerð.

Í síðustu viku skilaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Hér er hún, sú góða skýrsla. Þar er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að hvalveiðar skaði ekki íslenskt efnahagslíf. Ég ætla ekki að ræða þá skýrslu frekar hér og nú, en bendi á að hún hefur þegar vakið deilur. Skiptar skoðanir eru um hvalveiðar í samfélaginu, m.a. hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð, flokkur hæstv. forsætisráðherra, þar sem hún er formaður, lagst eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur. Í landsfundarályktun flokksins frá haustinu 2015 segir m.a., með leyfi forseta:

„Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna.“

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Ætlar ríkisstjórnin á ný að gefa út ný veiðileyfi og kvóta til veiða á langreyðum í lögsögu Íslands?