149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

dagskrá fundarins.

[14:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það en þjösnaleg framganga forseta í þessu máli vekur óneitanlega athygli. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því að við hv. þm. Karl Gauti Hjaltason höfum engar upplýsingar fengið um málsmeðferð á vettvangi forsætisnefndar. Einn daginn lesum við það í blöðunum að forseti ætli að beita sér fyrir setningu afturvirkra laga til að koma fram vilja sínum í málinu. Annan dag lesum við að hæstv. forseti ætli að nota ákvæði í þingsköpum til að handvelja fólk í sérstaka forsætisnefnd til að framkvæma ákvörðun sína sem hann kemur ekki sjálfur fram vegna vanhæfis. (Forseti hringir.) Ég hlýt að furða mig á þessum vinnubrögðum og vek um leið athygli á því að við höfum ekki notið andmælaréttar í þessari málsmeðferð allri annars en þess að fá að tjá okkur um hæfi forsætisnefndarmanna og siðanefndarmanna.