149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

dagskrá fundarins.

[14:19]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er Bleik brugðið. Hér er verið að ræða þingsköp og eftir því sem ég kemst næst er engin heimild í þingsköpum fyrir því sem hér á að gera. Samkvæmt sögusögnum, þar sem okkur hafa ekki borist nein gögn um þetta, ætlar hæstv. forseti að hengja sig í 94. gr. þingskapa, sem ég sé ekki í fljótu bragði að hægt sé á nokkurn hátt að nýta til þessara verka. Hér er um valdníðslu að ræða. Ætli hann sér hins vegar að kjósa nýja forsætisnefnd fer um þá kosningu samkvæmt 3. gr. þingskapa. Við þá aðgerð kemur 6. gr. inn, að hægt er að kjósa nýja menn, en þá ógildist fyrri kosning.

Við hljótum að kalla eftir því á Alþingi að farið sé að þingsköpum. Við hljótum að kalla eftir því að farið sé að lögum. Þetta sætir furðu. Mig langar til að fá svör við því, ef rétt reynist að þingmenn hafi verið rannsakaðir í þeim tilgangi að sjá hvort þeir séu hæfir til að fjalla um þetta mál eða ekki, hver framkvæmdi þá rannsókn, á hvaða forsendum, með stoð í hvaða lögum það var gert og hvað var rannsakað.