149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu um stöðuna á Landspítalanum. Það er sérstaklega gleðilegt að málshefjandi í því máli er hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, en hún og hennar flokkur hafa einmitt staðið hingað til fremst í stafni þeirra sem hafa viljað tefja uppbyggingu á Landspítalalóðinni og það er gott að nú skuli vera komin sinnaskipti hjá þessum ágæta þingflokki, þ.e. að hafa áttað sig á því að staðan er raunverulega slæm á Landspítalanum, að það þarf að grípa til raunverulega aðgerða og að tafir í því máli munu ekki hjálpa okkur neitt.

Það er meira en bara fráflæðisvandi á Landspítalanum, það er líka aðflæðisvandi, þ.e. þangað leita í rauninni miklu fleiri en ættu að leita Landspítalans sem fyrsta viðkomustaðar. Hæstv. heilbrigðisráðherra er þegar búin að leggja ýmislegt af mörkum í því að breyta þessari stöðu. Heilsugæslan hefur verið efld. Nám í heimilislækningum hefur verið stóreflt á Íslandi frá því að heilbrigðisráðherra tók við og þannig mætti lengi telja. Heilbrigðisstefnan sem verður lögð fyrir þingið vonandi á næstu dögum mun síðan hjálpa okkur við að rata betur fram á veginn.

Við skulum átta okkur á því ef við ætluðum til að mynda að halda okkur við núverandi módel í sambandi við uppbyggingu hjúkrunarrýma á Íslandi, þar sem staðan er sú í dag að helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri á víst hjúkrunarrými á stofnunum víðs vegar um landið, myndum við eftir 30 ár vera komin upp í 8.000 hjúkrunarrými. Langar einhvern í þá stöðu og þann rekstrarbagga sem því myndi fylgja, 100 milljarða á ári? Nei, við verðum að finna nýjar leiðir og við verðum þess vegna að leggja áherslu á að halda áfram að sinna fólki þar sem það helst vill vera, heima hjá sér.