149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni Landspítalans og úttekt landlæknis. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir umræðuna og eins vil ég þakka hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir að fara yfir stöðuna með okkur. Ég vil jafnframt þakka þá úttekt sem er grundvöllur umræðunnar og eins og komið hefur fram brást landlæknisembættið við ábendingum um alvarlega stöðu á bráðamóttöku spítalans. Fyrst vil ég segja að það er ánægjulegt að sjá kerfið okkar, eftirlitið, ábendingarnar og viðbrögðin virka og brýnt að heyra af þeirri vinnu, beint frá hæstv. ráðherra, sem fram fer til að ráða bót á þessum málum.

Mér finnst jafnframt mikilvægt að draga fram í umræðunni, og ég get vitnað til orða hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar, að þessi skýrsla er ekki svört. Þrátt fyrir allt og öll þau vandasömu verkefni sem við eigum við á þessu sviði erum við með gott heilbrigðiskerfi. Það er í raun og veru það sem maður tekur með sér úr þessari skýrslu. Það er engin töf á því að þeir sem eru veikastir fái þjónustu. Meðaldvalartími þeirra sem útskrifast hefur ekki lengst og er talinn innan viðmiða samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi.

Vandinn sem við ræðum hér og hefur komið fram liggur fremur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þau úrræði sem eru í vinnslu í ráðuneytinu. En á sama tíma og við ræðum þennan vanda gerum við miklar kröfur og eigum að gera það um skipulag og nýtingu fjármuna, sem eru verulegir í samhengi ríkisfjármála. Það er mikilvægt til framtíðar litið, virðulegi forseti, bæði fyrir þing og þjóð, (Forseti hringir.) að við styðjumst við skilgreinda mælikvarða um nýtingu fjár.