149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa mikilli ánægju með það að Reykhólahreppur hefur tekið þá erfiðu ákvörðun að setja inn á aðalskipulag sitt veglínu, ÞH-leið, um Teigsskóg og að þá sé hægt að fara að byrja á að framkvæma á þessu svæði sem í raun og veru hefur verið haldið í gíslingu í hátt í 20 ár. Stjórnvöld og opinberir aðilar hafa ekki getað komist að niðurstöðu um hvar veglína á að liggja í gegn á þessu viðkvæma svæði sem er í raun og veru allt ein náttúruperla, eins og Vestfirðir eru auðvitað allir. Við erum samt komin lengra á öðrum svæðum á Vestfjörðum með að leggja varanlega vegi. En þarna eru vegir sem eru ekki boðlegir á 21. öldinni, hvorki fólki né þeim fyrirtækjum sem eru þar til staðar.

Það má vissulega deila um hvaða vegstæði er best og að komið sé í veg fyrir að raska umhverfinu. Við getum haldið áfram að deila um það næstu 20 ár en það skilar ekki miklu fyrir þessa byggð og þetta snýst ekki bara um íbúa næsta nágrennis þessa svæðis heldur alla Vestfirði. Þetta verður þjóðbraut eftir að Dynjandisheiðin verður löguð og Dýrafjarðargöngin komin í gegn.

Hefði ég ein mátt ráða hefði ég kannski valið einhverja aðra leið fyrir 15–20 árum en þetta hefur verið í höndum þeirra aðila sem ráða og fjalla um þetta. Við erum búin að fara hring eftir hring og höfum skoðað ótal valkosti, kostnaðarmetið og skilgreint fram og til baka og einhvern tímann verður að höggva á hnútinn. Ég er stolt af hreppsnefnd Reykhólahrepps að hafa haft kjark til þess. Nú göngum við bara saman og náum sátt um (Forseti hringir.) að leggja veg um þetta svæði sem löngu er kominn tími til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)