149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú við upphaf vetrarþings tókum við dag til að fara yfir stöðuna í stjórnmálum. Þar kom svo sem ekki mikið á óvart. Hver lítur sínum augum á málin eins og gengur. Sjónarhornin eru misvíð og gleraugun misdökk. Einn telur ekki rétta tegund af fólki fara með völdin og annar fullyrðir jafnvel að erindi ríkisstjórnarinnar sé ekkert og hér ríki stöðnun og allt sé á heljarþröm.

Sama hve mikið ég legg mig fram get ég ómögulega áttað mig á því hvernig þessir hv. þingmenn sjá veröldina. Auðvitað erum við ekki sammála um hver á að stjórna en aldrei hefur verið settur viðlíka kraftur í innviðauppbyggingu og nú. Ákallið fyrir kosningar var jú að farið yrði í innviðauppbyggingu og eflingu samfélagslegra verkefna.

Hæstv. forseti. Aðgerðir til að bæta stöðu þeirra lægst launuðu eru komnar af stað og kynntar verða fleiri breytingartillögur á skattkerfinu til að koma til móts við þá sem hafa lægstu tekjur og lægri millitekjur. Samráð við hagsmunaaðila í kjaraviðræðum hefur aldrei verið meira og ánægjuleg eru viðbrögð við tillögum í húsnæðismálum sem kynntar voru í gær. Þær staðfesta yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar til að finna lausnir á húsnæðisvanda þjóðarinnar og búa til raunhæfar lausnir.

En eftir stendur, eins og reyndar einn þingmaður hafði á orði, að við viljum flestöll, ef ekki bara öll, vinna landi og þjóð gagn og gera vel. Pólitíkin er þó á sérstökum stað. Samfélagið breytist hratt og það er sem betur fer ekki bara svart og hvítt. Pólitíkin hlýtur að snúast um samtal og samvinnu. Það sýnir sig nú að sú leið kemur okkur áfram.

Nú er gott að hafa sterkar rætur með sterkri félagshyggjutaug til að byggja á. Það er eftirspurn eftir skynsemi og raunsæjum lausnum sem milda allar öfgar. Áfram Ísland!