149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið öðru sinni. Ég gleðst yfir því að ég heyri ekki betur en að hann muni styðja þessa tillögu. Það er vel.

Marrakesh-samkomulagið hefur raunar ekki, eins og hv. þingmaður benti á, fengið mikla umfjöllun í þinginu en sú umfjöllun sem það fékk og sú kynning sem hv. þingmaður kom með í störfum þingsins, minnir mig, í desember, var á misskilningi byggð. Hann lét að því liggja eða hans skilningur var sá að við misstum hugsanlega tökin á þeim sem kæmu inn í landið og hingað myndi flykkjast fólk af öllum toga og þetta myndi hugsanlega vega að fullveldi landsins, sem er misskilningur. Þessi samningur er ekki skuldbindandi, en það er til vegsauka fyrir Ísland að mínu áliti að við skulum vera aðili að samningnum, taka þátt í því alþjóðasamstarfi sem við er að glíma varðandi farendur um allan heim. Það er gríðarlegt viðfangsefni sem við eigum að taka þátt í með okkar framlagi, en það skuldbindur ekki þjóðina með einum eða neinum hætti.

Það er rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að umræðan hefur ekki verið mikil um þetta samkomulag, þessa samþykkt, í þinginu og það eru ekki endilega allar þjóðir í kringum okkur aðilar að þessum samningi.