149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Mér fannst ekki vera bein spurning til mín í því, en ég get upplýst hv. þingmann um að á þingflokksfundum Miðflokksins er náttúrlega húslestur. Við förum yfir þau kristilegu gildi sem við störfum eftir og sum okkar hafa nú komið fram og sagt: Vertu mér ranglátum líknsamur. Þannig að það vantar eiginlega ekkert upp á það. Ég bið hv. þingmann um að sperra eyrun og taka vel eftir því.

En það kann vel að vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni að Danir hafi mjög góða stefnu í þessum málaflokki og ég efast ekkert um það. En það breytir því ekki að börn af íslenskum uppruna njóta ekki kennslu á móðurmáli sínu, alla vega ekki í hluta af Danmörku. Þá er ég að tala um borg á stærð í Reykjavík, ég veit ekki hvernig það er í Kaupmannahöfn, mig minnir að Íslendingafélagið sé þar sjálft með einhverja starfsemi. En það breytir því ekki að yfirvöld sinna ekki þessu máli.

Það leiðir okkur að því að við þurfum að læra af þeim mistökum sem Norðurlandaþjóðirnar hafa vissulega gert í móttöku á fjölmörgum innflytjendum. Það hefur kristallast t.d. í norskri stjórnmálaumræðu síðan líklega 1980–1985, ef ég man rétt. Þar voru varnaðarorð höfð uppi m.a. af prófessorum í háskólum, sem voru umsvifalaust stimplaðir rasistar, alveg um leið, og gekk hneykslunaralda yfir Noreg út af skoðunum þeirra og varnaðarorðum á þeim tíma. En því miður rættust mjög mörg af þessum varnaðarorðum, því að ástandið varð miklu erfiðara en Norðmenn höfðu gert sér í hugarlund og jafnvel erfiðara en yfirvöld gátu tekið á.