149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega mikil og merk saga sem liggur hér að baki. Hér fyrr á tíð var árvekni og viðspyrna af hálfu stjórnvalda í þeim málum sem lúta að þeim reit sem hér um ræðir. Ég ætla að greina frá því hér að það verður rifjað upp í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef greint frá, að ríkisstjórnin á árunum 1965–1966 greip inn í rás atburða sem ógnaði kirkjugarðinum, Víkurgarði, og kom í veg fyrir að mikil bygging, nánast sams konar þeirri sem nú er áformað að þar rísi, hótel, risi sunnan við Landssímahúsið.

Það verður sömuleiðis rifjað upp að skipulagsnefnd kirkjugarða undir forystu herra Sigurbjarnar Einarssonar biskups og Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar hefði í mars 1965 vakið athygli borgarlögmanns á því að lög heimiluðu ekki að þarna yrði reist mannvirki nema samkvæmt sérstakri undanþágu ráðherra, að fengnu samþykki skipulagsnefndar kirkjugarða, sem var fyrirrennari núverandi kirkjugarðaráðs. Þessi saga er mikil og gefst mér ekki tími til að rekja hana nánar.

En ég ítreka þakkir mínar til flutningsmanna þessa frumvarps og ítreka sömuleiðis von mína um að þessi málatilbúnaður og tillöguflutningur á Alþingi muni hafa þá verkan sem ég gat um áður í máli mínu, að veita öfluga viðspyrnu og koma við viðsnúningi í þessu máli.