149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

233. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með síðari breytingum, nr. 111/2016. Hér er fyrst og fremst um rýmkun skilyrða að ræða til nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð.

Flutningsmenn eru Þorsteinn Víglundsson, sá sem hér stendur, Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Fátt er mikilvægara en að hjálpa fólki og einstaklingum að koma sér þaki yfir höfuðið, hvort sem er til kaupa á eigin húsnæði eða leigu. Það verður þó ekki um það deilt að sýnu mikilvægara af þessu tvennu er að hjálpa fólki sem það kýs að eignast húsnæði. Það sjáum við þegar við horfum yfir stöðu einstaklinga, sérstaklega tekjulægri einstaklinga, ekki hvað síst á efri árum, hve miklu munar hjá fólki sem náð hefur að eignast eigið húsnæði í samanburði við einstaklinga sem eru enn á leigumarkaði á efri árum þar sem oft fara saman lækkandi tekjur og hækkandi aldur.

Þess vegna, í því samhengi, leggjum við fram þetta mál þar sem í stuttu máli er einstaklingnum gert kleift að nota þann hluta séreignarsparnaðar sem tekinn var upp sem nýbreytni í kjarasamningum sem nú runnu út um síðustu áramót, svokallaða tilgreinda séreign, þ.e. 3,5% lífeyrisiðgjald, sem er hluti af skyldutryggingunni, 15,5%. Í því felst kannski eðlisbreytingin á núverandi úrræði og því sem hér er lagt til að verði útvíkkað þannig að það nái til lífeyrissparnaðar einnig. Þetta er hluti af skyldutryggingu einstaklinga. Það er því ekki háð fjárhagsstöðu viðkomandi hvort þetta séreignarúrræði er nýtt eða ekki heldur getur einstaklingurinn valið að þessi 3,5% af 15,5% skylduiðgjaldi renni í séreignarsjóð.

Ástæða þess að við viljum að fyrstu kaupa úrræðin, eða nýting séreignarsparnaðar til fasteignakaupa, nái einnig til þessara hluta er einmitt sú að tekjulægri einstaklingar á vinnumarkaði eru miklu ólíklegri til að nýta sér séreignarsparnað, viðbótarsparnað af launum sínum en tekjuhærri einstaklingar. Núverandi úrræði nær því miklu frekar til millitekjuhóps og þaðan af hærri launamanna en þeirra sem á lægstu launum eru.

Samt stöndum við frammi fyrir þeim vanda að tekjulægsti hópurinn á í mestum vanda við að koma sér þaki yfir höfuðið, mestum vanda við að stíga inn á fasteignamarkaðinn til fyrstu kaupa. Við teljum að þetta úrræði gæti hjálpað þeim hópi verulega. Við sjáum þróunina sem verið hefur á undanförnum árum, alveg frá efnahagshruni, að meðalaldur ungs fólks sem býr enn í foreldrahúsum hefur hækkað mjög. Við skerum okkur raunar úr í samanburði við önnur Norðurlönd. Mun hærra hlutfall, tvöfalt hærra hlutfall, fólks á aldrinum 20–29 ára býr enn í foreldrahúsum á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd.

Þetta er vandi sem ekki verður horft fram hjá. Við leggjum því til að þessi leið verði farin, að heimilt verði að nýta þennan viðbótarséreignarsparnað, ef svo mætti orða, sem er hluti af skyldutryggingunni, 3,5%, inn í þetta úrræði líka, sem er undanskilið samkvæmt núverandi löggjöf.

Þess ber að geta í þessu samhengi að enn hefur ekki verið gefinn kostur á þessu svigrúmi á opinbera vinnumarkaðnum, svo best ég veit. Starfsmenn hins opinbera greiða 15,5% eða greitt er 15,5% iðgjald af launum þeirra í lífeyrissjóð en ekki hefur verið opnað á þann möguleika enn þá að hluti þess iðgjalds sé nýttur í séreignarsparnað. Það er samningsatriði milli aðila og ég reikna ekki með öðru en að sá sveigjanleiki verði einnig tekinn upp á opinbera vinnumarkaðnum og nái þannig til alls vinnumarkaðarins.

Lagt er til að breytt verði fleiri þáttum. Þetta úrræði er rýmkað enn frekar þannig að það eigi ekki eingöngu við um kaup á fyrstu íbúð heldur eigi það við hafi hlutaðeigandi ekki átt fasteign undangengin þrjú ár og ekki fullnýtt þetta úrræði áður. Ástæða þessa er sú að við erum enn með mjög stóran hóp fólks sem missti húsnæði sitt í hruninu, hefur verið fast á leigumarkaði síðan, hefur ekki haft fjárhagslegt svigrúm til að kaupa húsnæði að nýju en stendur ekki til boða að nýta núgildandi séreignarúrræði. Ég held að það sé því mikið réttlætismál að þeim hópi standi þetta einnig til boða og að úrræðið standi almennt opið fyrir fólk sem er að stíga inn á fasteignamarkaðinn til kaupa, hvort sem er í fyrsta sinn eða eftir þrjú ár eða lengri tíma án eigin húsnæðis. Það gæti þar af leiðandi nýst þeim hópi sem, enn og aftur, er hópur í oft og tíðum mjög erfiðri stöðu og tekjulágur hópur, til að rétta stöðu sína á fasteignamarkaði að nýju.

Í þriðja lagi eru síðan lagðar til nokkrar tæknilegar breytingar og nánari útfærslur á núgildandi lögum sem ég ætla ekki að fara nánar út í.

Ég held að þetta úrræði sé, og reynslan hafi sýnt, að séreignarsparnaðarúrræðið hafi virkað mjög vel fyrir þá aðila sem það hafa getað nýtt, hvort heldur sem er til niðurgreiðslu á fasteignalánum, eins og heimilt var fyrst um sinn, eða til að leggja fyrir eða greiða niður útborgun vegna fyrstu kaupa. En eins og fyrr sagði er alveg ljóst að það hefur ekki nýst sem skyldi tekjulægstu hópunum, þeim sem verst eru staddir á fasteignamarkaði.

Því hefur oft verið velt upp hversu langt sé réttlætanlegt að ganga í að nýta lífeyrissparnað sem þennan til fasteignakaupa og hversu langt ríkissjóður geti gengið í skatteftirgjöf af þessum sama lífeyrissparnaði því að það er auðvitað kostnaður ríkissjóðs eða í því felst stuðningur ríkissjóðs að gefa eftir skattskyldu af þessum tekjum, sem gerir þetta sparnaðarúrræði svo sterkt fyrir viðkomandi einstaklinga. Þetta þýðir minni skatttekjur en ella fyrir ríkissjóð þegar kæmi að útgreiðslu lífeyrissparnaðar á eftirlaunaárum. En það má auðvitað segja á móti að sá hópur eldri borgara sem hvað verst hefur það er einmitt, eins og ég nefndi áðan, sá hópur sem býr enn í leiguhúsnæði og þarf þar af leiðandi meira á stuðningi t.d. almannatrygginga og annarra húsnæðisúrræða, eins og húsnæðisbóta, að halda. Það má því allt eins halda því fram að í þessu felist á endanum ekki tapaðar tekjur fyrir ríkissjóð. Vissulega minni skatttekjur af iðgjöldum þegar fram í sækir en á móti minni kostnaður eða minni tilfærslur til þess hóps sem þá hefur, vegna þessara úrræða, tekist að eignast eigið húsnæði og situr vonandi í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði á efri árum. Það bætir stöðu viðkomandi hóps verulega og dregur að sama skapi væntanlega úr þörf þess sama hóps fyrir stuðning hins opinbera, t.d. í formi húsnæðisbóta.

Þess vegna held ég að það sé vel forsvaranlegt á þessum einföldu kostnaðarlegu nótum að ríkið styðji með þessum hætti við húsnæðiskaup ungs fólks.

Í öðru lagi er alveg ljóst að í núverandi lífeyriskerfi, eins og hefur reyndar nokkuð verið í umræðunni núna á undanförnum vikum, er iðgjald með séreignarsparnaði orðið æðihátt fyrir unga einstaklinga sem eru að hefja störf á vinnumarkaði. Við erum með 15,5% skyldutryggingu og allt að 6% viðbótariðgjald í séreignarsparnað. Þetta leggst á ungt fólk á þeim tíma sem það hefur hvað lægstar tekjur á æviskeiði sínu en mesta útgjaldaþörf. Fólk er að eignast húsnæði, stofna til fjölskyldu og koma sér af stað í lífinu. Auðvitað er það þannig að við erum á hápunkti í tekjuferlinu um miðjan aldur og upp úr miðjum aldri léttist verulega á framfærsluþörf okkar þegar börn er uppkomin, fólk er í stöðu til að minnka við sig húsnæði o.s.frv. Hér eru því ágætistæki til þess að hjálpa einstaklingum að endurdreifa tekjum sínum með þessum hætti, þ.e. að nýta þennan séreignarsparnað og skattleysi hans strax til húsnæðiskaupa og það eigi ekki að koma að sök þó svo að lífeyristekjur viðkomandi verði minni á efri árum.

Áætlað er að ungur einstaklingur að hefja störf á vinnumarkaði í dag sem fullnýtir öll þau úrræði til lífeyrissparnaðar sem fyrir hendi eru, skyldutryggingu plús séreignarsparnað, verði með vel liðlega 100% af meðalævitekjum sínum í lífeyri, þ.e. samanborið við þau 56% sem t.d. 12% iðgjaldið var hugsað fyrir upphaflega. Það er staðreyndin um lífeyriskerfið okkar. Það er að verða fullþroskað með þeim breytingum sem á því hafa verið gerðar og má alveg halda því fram að iðgjöldin séu jafnvel of há, sérstaklega fyrir ungt fólk, og þetta sé gott úrræði til að í senn hjálpa fólki við fyrstu skrefin á fasteignamarkaði og um leið létta lífeyrisiðgjaldabyrði af fólki meðan það er hvað tekjulægst.

Ég vona að þetta úrræði geti notið víðtæks stuðnings í þinginu. Það rímar ágætlega við þær húsnæðistillögur sem átakshópur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt fram og rímar líka mjög vel við þær hugmyndir í húsnæðismálum sem fyrri ríkisstjórn lagði fram og voru nokk keimlíkar þeim sem nú hafa litið dagsins ljós aftur og ætti því að falla ágætlega saman við þær áherslur sem þar er að finna, sem er fyrst og fremst að hjálpa ungu fólki að eignast þak yfir höfuðið.