149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

málefni aldraðra.

306. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (U):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og varðar tillagan sem hér er borin fram Framkvæmdasjóð aldraðra. Flutningsmenn erum við utanflokkaþingmennirnir hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, auk hv. þingmanna úr þremur þingflokkum sem eru Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Viðreisn.

Markmið breytingar á lögum um málefni aldraðra er að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra sé varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, eins og kveðið er á um í lögunum. Verði frumvarpið að lögum fellur niður bráðabirgðaákvæði VII við lögin sem er heimild til þess að, með leyfi forseta, „verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða“, eins og þar segir. Það er sem sagt rekstrarkostnaðurinn sem er aðalatriðið.

Með frumvarpinu er vakin athygli á því að fyrirhugað „stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila“, eins og heilbrigðisráðherra kallaði það í fjölmiðlakynningu í apríl 2018 og á að koma til framkvæmda á árunum 2019–2023, mun kosta ríkissjóð tæpa 9 milljarða kr. Það skilar sjóðnum ekki aftur því fjármagni sem hefur verið úr honum tekið í rekstur frá hruni, sem á árabilinu 2009–2018 nemur um 10,8 milljörðum kr. á verðlagi ársins 2018. Þá nemur kostnaðurinn við stórátakið sömu fjárhæð og sjóðnum er ætlað að greiða fyrir rekstur og afborganir af eldri lánum á árunum 2019–2023 sem eru 8,8 milljarðar kr. Hlutfall þess fjár sem sjóðurinn hefur til nýrra stofnkostnaðarverkefna á yfirstandandi ári — og frumvarpið er lagt fram 2018 þannig að þessi setning á við árið 2018 — er 28,5% af tekjum hans. Virðist eðlilegra að sjóðnum sé gert mögulegt að rækja hlutverk sitt frekar en að ráðast í stórátak til hliðar við hann.

Upplýsingar stjórnvalda í því efni má telja eilítið villandi í ljósi þess að álitleg áform um uppbyggingu hjúkrunarheimila eru kynnt sem nýtt verkefni á vegum ríkisstjórnarinnar á meðan rúmur helmingur af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra er notaður til að greiða rekstrarkostnaðinn. Þar sem almennir skattborgarar og greiðendur skattsins í Framkvæmdasjóð aldraðra eru ekki nákvæmlega sami hópurinn má segja að þessi viðsnúningur á hlutverkum feli í sér stjórnarhætti sem ekki mæti forsendum laga um sjóðinn. Þannig er öldruðum nú ætlað að greiða fyrir stórátakið, rétt eins og öðrum skattgreiðendum, meðan lögin gera ráð fyrir að þeir sem eldri eru en 69 ára séu undanþegnir álögum vegna uppbyggingar stofnana fyrir aldraða, enda er fólk sem náð hefur þeim aldri undanþegið skatti til Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Í greinargerð er rakið að Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum á árinu 1999. Þar er enn fremur rakið hvernig hann er fjármagnaður, með nefskatti á alla skattgreiðendur á aldursbilinu 16–69 ára o.s.frv.

Ákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra eru í III. kafla laga um málefni aldraðra. Þar eru í 9. gr. talin upp verkefni sjóðsins, m.a. að hann skuli stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Í 3. gr. laganna er tilgreint til hvaða verkefna fé sjóðsins skuli varið og ef ég rétt hleyp yfir það skal fénu varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða, til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, til viðhalds húsnæðis til dagdvalar og dvalar- og öldrunarheimila og annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Ákvæði til bráðabirgða VII, sem lagt er til að falli brott, var tekið upp í lögin árið 2010 og gilti fyrst fyrir fjárlagaárið 2011. Ákvæðið hefur gilt til eins árs í senn og hefur verið endurnýjað í fjárlögum hvers árs síðan. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er fyrirhugað að það verði endurnýjað næstu fimm árin. Bráðabirgðaákvæðið felur í sér að Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Nú háttar þannig til að á gildistíma laganna hefur öldruðum, ef miðað er við fólk 67 ára og eldra, fjölgað um 67,5%, hátt í 14.000 manns, að meðaltali um 1.720 manns árlega. Reiknað er með að öldruðum fjölgi mikið á næstu 40 árum miðað við mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir rúmlega tvöföldun aldraðra á þeim tíma og verði þeir í lok tímabilsins um 90.000 manns. Þá verða stærstu árgangar Íslendinga orðnir aldraðir og eftir það mun öldruðum fækkað sé miðað við aldurspíramída þjóðarinnar eins og hann lítur út um þessar mundir. Eftir því sem öldruðum fjölgar má reikna með að fjárþörf sjóðsins aukist jafnt og þétt. Á komandi árum og áratugum mun öldruðum fjölga meira en sem nemur fjölgun þeirra skattgreiðenda sem greiða gjald til sjóðsins.

Svo að ég vísi aftur til greinargerðar er mjög ítarlega fjallað um hvernig fé sjóðsins er varið. Það má auðvitað staldra við og spyrja hvort stöðugt batnandi heilsufar aldraðra muni ekki smám saman draga úr þörfinni á húsnæði fyrir aldraða og einnig hitt, hvort sjónarmið um heppileg húsnæðisúrræði kunni ekki að breytast þannig að aldraðir leggi sjálfum sér til húsnæði í meira mæli í framtíðinni en nú er eða að önnur og kostnaðarminni úrræði komi til. Því er til að svara að batnandi heilsufar hækkar meðalaldur og færir þjónustuþörfina á eldri aldurshóp en áður, en hún minnkar sennilega hvorki né hverfur. Ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að þörfin fyrir stuðning ríkisins aukist stöðugt næstu 40 árin en fari minnkandi eftir það.

Í greinargerð er ítarlega fjallað um þau efni sem ég nefndi, ýmis fjárhagsmálefni sjóðsins. Vil ég sömuleiðis rekja í sem allra stystu máli, af því að það er orðið áliðið dags, að í greinargerð er að finna ítarlegar, tölulegar upplýsingar sem snerta efni frumvarpsins. Sýndur er rekstrarkostnaður sjóðsins, annar stofnkostnaður og endurbætur og einnig kostnaður vegna svokallaðrar leiguleiðarheimildar. Sýnt er hlutfall stofnkostnaðar til nýrra verkefna af heildarfé sjóðsins og sérstakar fjárveitingar til hjúkrunarheimila. Fram kemur í því talnaefni sem þarna liggur fyrir, í hinni ítarlegu greinargerð sem fylgir frumvarpinu, að rekstrarkostnaður vegna bráðabirgðaákvæðisins sé föst upphæð frá og með árinu 2018. Viðhald fasteignar er einnig greitt af þeim lið á tímabili fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar 2019–2023. Fara því um 4,5 milljarðar kr. af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til rekstrar. Hérna er kannski kominn innsti kjarninn og ástæða þess að frumvarpið er lagt fram, að þetta fé verði nýtt með öðrum hætti en til rekstrar, verði nýtt til að byggja ný heimili og halda við og endurbæta þau sem fyrir eru.

Í greinargerð er sömuleiðis rakið að greiðslur af eldri lánum eru mjög íþyngjandi fyrir sjóðinn, þær stefni í að verða 855 millj. kr. árlega í 40 ár, en það eru afborganir af lánum sem tekin voru á sínum tíma.

Einnig kemur fram í því talnaefni sem fylgir í greinargerð frumvarpsins að hlutfall nýrra verkefna, bæði nýbygginga og til endurbóta, er innan við 30% af ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 2018. Talan er 28,5% og ekki verður séð að það muni hækka nema upp í 45% á næstu árum samkvæmt áætlunum stjórnvalda. Það undirstrikar enn fremur hversu brýnt er að fella á brott þetta bráðabirgðaákvæði til að tryggja að fé sjóðsins nýtist til að byggja ný heimili og halda við og endurbæta þau sem fyrir eru en sé ekki notað í rekstur. Tilgangurinn með því að Framkvæmdasjóður aldraðra var settur á laggirnar og markmið hans er bygging nýrra hjúkrunarheimila og annarra slíkra stofnana fyrir aldraða.

Herra forseti. Ég hef farið í sem allra stystu máli yfir frumvarpið. Efni þess er að bráðabirgðaráðstöfun um að nýta megi hluta af fé sjóðsins til rekstrar falli brott og að sjóðurinn verði látinn starfa samkvæmt upphaflegum tilgangi sínum og markmiðum. Um það snýst þetta mál nú. Verði frumvarpið að lögum bætir það stöðu sjóðsins mjög verulega frá og með þeirri samþykkt. Það fé sem nú fer til rekstrar rynni þá til lögboðinna verkefna hans, eins og til var stofnað. Bolmagn sjóðsins á hverju ári til byggingar heimila fyrir aldraða myndi aukast um 2/3, 67%, frá því sem nú er, úr 1,4 milljörðum kr. í um 2,3 milljarða kr. Þetta jafngildir árlega um 30 hjúkrunarrýmum. Ég legg sömuleiðis á það áherslu að hafa verður í huga að sjóðnum hefur ekki enn verið bætt upp það fé sem runnið hefur til rekstrar á umliðnum árum, eins og ég rakti, í fyrsta sinn frá árinu 2011 vegna bráðabirgðaákvæðis VII. Boðað stórátak í fjármálaáætlun næstu fimm ára haggar ekki þeirri staðreynd.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái góðan stuðning á hinu háa Alþingi. Hér er mikið hagsmunamál aldraðra og ekki ráð nema í tíma sé tekið. Málefni hjúkrunarheimilanna fyrir aldraða eru mjög aðkallandi og brýn.