149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið mig þannig að um einhverja uppgjöf væri að ræða. Það er alls ekki þannig. Við erum að fara í mannréttindaráðið og vorum hvött til þess út af framgöngu okkar. Eftir henni hefur verið tekið og þess vegna vorum við hvött til þess að ganga í mannréttindaráðið. Ég er fyrsti ráðherrann sem ávarpar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og eftir því var tekið. (HKF: Ég er meira að spyrja um alþjóðasamstöðu …) Ég lít svo á, af því að hv. þingmaður spyr um samstöðu Vesturveldanna og þeirra ríkja sem eru sammála þeim, að við séum að nýta okkar samstöðuaflið. Bara þessi litla framganga okkar hefur skilað einhverjum árangri, alla vega miðað við viðbrögð mannréttindasamtaka. Og hvað þá ef stærri ríki gera það?

Lítum okkur aðeins nær. Þrátt fyrir að við getum verið ánægð með stöðu mannréttindamála hefur maður svo sannarlega á sinni tíð séð gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi, mjög margar til mjög góðs. Ég efast um að þær hafi orðið nema vegna þess menn kynntumst einhverjum hlutum annars staðar. Maður kynnist ekki hlutum annars staðar nema vera í samskiptum við annað fólk. Og eins og ég nefni eru viðskipti ekki bara þannig að þau séu algerlega ópersónuleg; að ég rétti vöru, hv. þingmaður rétti pening eða þjónustu eða hvar það er. Þetta eru samskipti. Maður lærir ef maður er í viðskiptum eða samskiptum við aðrar þjóðir sem gera hlutina með öðrum hætti. Þá lærir maður ýmislegt.

Ég er t.d. mjög fylgjandi auknum samskiptum og ég held og vil trúa því að það sé besta leiðin til friðar. Því betur sem ungt fólk kynnist öðru ungu fólki í öðrum löndum, ég tala ekki um í öðrum heimsálfum, þeim mun líklegra er að það leiði til þess að gildi sem við stöndum fyrir, eins og lýðræði, eins og mannréttindi, eins og réttarríkið, verði ofan á. Þá eru meiri líkur á því að þau gildi verði til staðar. Og fólkið sem trúir því þegar það kynnist þessum gildum og fólki í öðrum löndum eflist við það og sér eitthvað sem það vill sjá heima hjá sér. Þýðir það að við eigum ekki að minnast á mannréttindamál á vettvangi EFTA? Nei, það þýðir það ekki, og reyndar held ég að við eigum alltaf að gera það. (Forseti hringir.) En hins vegar held ég að ein leið til að auka mannréttindi í heiminum séu aukin viðskipti.