149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umræða um mannréttindamál góð og mér hefur fundist hún málefnaleg. Það er stefna okkar að láta rödd okkar heyrast þegar kemur að mannréttindamálum. Ég er samt ekki viss um að vöndurinn okkar sé neitt sérstaklega stór. (Gripið fram í: Mætti vera stærri.) Hv. þingmaður kallar að hann mætti vera stærri. Ég hef hins vegar aldrei haft neina stórveldisdrauma. Suma langar að vera í einhverri Stór-Evrópu og finnst þeir litlir en ég hef aldrei skilið þá hugsun. Ég er fullkomlega sáttur við að vera Íslendingur og meðvitaður um stöðu og stærð landsins. Við getum látið gott af okkur leiða í ýmsum málum, sérstaklega með fordæmi. Sömuleiðis eigum við að vekja athygli á mannréttindamálum og það höfum við gert.

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson talaði um átökin í Sýrlandi og sömuleiðis um Kúrda. Þeir þrír aðilar sem þar var vísað til hittu pólitískan aðstoðarmann minn í utanríkisráðuneyti og við erum að skoða gögnin sem þar eru.

Varðandi það sem hv. þm. Smári McCarthy og hv. þm. Andrés Jónsson vísuðu til fannst mér ég fara ágætlega yfir þau mál. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við höfum tekið upp og haft forystu varðandi jafnréttismálin og vægi kvenna á vettvangi alþjóðaviðskipta og líka á vettvangi EFTA. Hv. þm. Smári McCarthy hefur heyrt mig tala um þau mál á fundum með hv. þingmönnum og einnig er talað um þau mál á fundum með ráðherrum. Frumkvæði okkar Íslendinga í því er alveg skýrt.

Hv. þingmaður talaði um mjög alvarlega hluti, t.d. ritskoðun. Þegar við komum að því eru ansi mörg ríki sem við eigum í viðskiptum við sem eru á þeim stað. Þrátt fyrir að ég ætli ekki að draga úr áhyggjum mínum varðandi stöðu mannréttindamála í Tyrklandi eigum við viðskipti og höfum gert samninga við lönd sem ganga miklu lengra í mannréttindabrotum.

Það sem við erum búin að gera: Það var brotið blað þegar ég ávarpaði þing mannréttindaráðsins. Við þekkjum hvað gerðist í kjölfarið. Við höfum m.a. notað þann vettvang — við eigum svo sem fríverslunarsamninga við þau ríki líka, í það minnsta Sádi-Arabíu — til að gagnrýna af hverju ríki eins og Sádi-Arabía er í mannréttindaráðinu, skrifar undir alla samninga og gengur fram hjá þessu. Ég veit að það skiptir máli af því að við höfum fengið staðfestingu á því og fengið harða gagnrýni frá þeim ríkjum fyrir framgöngu okkar á því sviði.

Ég gæti farið yfir listann yfir lönd sem við eigum viðskipti við og höfum gert fríverslunarsamning við, bæði tvíhliða og á vegum EFTA, og svo er t.d. Evrópusambandið með fríverslunarsamninga við önnur ríki sem standa svo sannarlega ekki vel á sviði mannréttinda og við gætum gagnrýnt það allt saman.

Við höfum ekki aðeins beitt okkur í mannréttindaráðinu heldur líka sett af stað hóp þriggja manna, en niðurstaða hans verður kynnt, til að skoða mannréttindamál í þróunarmálum, í þróunarstefnu okkar. Ég held að það skipti máli að við gefum slík skilaboð og metum hvernig við gefum þau sem best, þannig að þau skili mestum árangri.

Við erum hins vegar ekki á þeim stað. Við erum ekki efnahagslegt stórveldi. Ef við ætlum að skrúfa fyrir viðskipti við einhverja mun það ekki valda neinum skjálfta neins staðar, held ég að ég geti fullyrt. Næstum ekkert land myndi finna mikið fyrir því, í það minnsta ekki hlutfallslega. Það er kannski tæki sem við höfum ekki en sum stórveldi hafa augljóslega.

Af því að við erum að ræða Tyrkland ætla ég að fara aðeins yfir stöðuna í mannréttindamálum en hún hefur versnað umtalsvert frá því að valdaránstilraunin var gerð í landinu í júlí 2016. Síðan þá hafa íslensk stjórnvöld ítrekað komið áhyggjum sínum af mannréttindaástandi á framfæri og gagnrýnt framferði tyrkneskra stjórnvalda. Ég gerði það að vísu líka áður en ég varð utanríkisráðherra. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á fjölmiðlafrelsi og sjálfstæði dómstóla og mótmælt aðför að mannréttindafrömuðum í landinu. Hefur afstöðu Íslands verið komið á framfæri opinberlega, í fjölmiðlum, yfirlýsingum og ræðum á vettvangi alþjóðastofnana, einkum ÖSE, Evrópuráðinu og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem og í tvíhliða samtölum við Tyrki, bæði í þeim sem ég hef átt sem ráðherra og sendiherra.

Ég hef tekið þau mál upp í ávörpum mínum í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Danmörku í maí síðastliðnum var áfram lýst áhyggjum af stöðu mála, m.a. hversu neyðarlögin í Tyrklandi hefði orðið langvinn og að kosningar skyldu haldnar á meðan þau væru í gildi. Þá hefur íhlutun Tyrklands í Sýrlandi frá janúar 2018 sætt sérstakri gagnrýni íslenskra stjórnvalda, til að mynda á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Á embættismannastigi hafa einnig átt sér stað samtöl, einkum við tyrknesk sendiráð gagnvart Íslandi, um stöðu mála í Tyrklandi og áhyggjur íslenskra stjórnvalda þar að lútandi. Ísland hefur einnig tekið undir ýmsar yfirlýsingar Evrópuríkja á vettvangi Evrópuráðsins og ÖSE þar sem gagnrýni og áhyggjum er komið á framfæri.

Þegar kemur að vaktinni varðandi mannréttindamál í Tyrklandi höfum við því bæði sýnt frumkvæði og lagt áherslu á þau mál.

Þó svo að ástand mannréttindamála í heildina hafi farið batnandi á undanförnum áratugum, ég tala ekki um árhundruðum, er því miður af nógu að taka á þeim vettvangi. Við höfum ekki náð að benda á þau mál öll, eðli málsins samkvæmt. En það er eftir því tekið hvernig við göngum fram þegar kemur að því að vekja athygli á bágri stöðu mannréttindamála í heiminum.