149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar kærlega fyrir spurningarnar og andsvarið og jákvæð orð. Við höfum rætt þetta, ég og hv. þingmaður, mikið í gegnum tíðina og á báða vegu, þessi markmið sem stangast á. Við ræddum það báðir í okkar ræðum, ég og hv. þingmaður, annars vegar skattkerfið og svo þann stuðning sem við viljum veita hér til almannaheilla eins og birtist í frumvarpinu.

Ég held að það sé afar mikilvægt að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem hv. þingmaður veitir forystu, séu allar mögulegar leiðir skoðaðar. Hv. þingmaður nefndi kvikmyndagerð. Við þekkjum nýlegt dæmi sem var í þeirri frávísunartillögu að það ætti að skoða bókaútgáfuna. Þá var farin önnur leið en áformað var um endurgreiðslu virðisaukaskatts, að endurgreiða hluta kostnaðar. Það er sérstök nefnd sem fer yfir öll skjöl og reynt er að tryggja umbúnaðinn um það. Það er mikilvægt að skoða allar þær leiðir sem hafa verið farnar einmitt út frá því hvernig við skoðum stuðninginn í ljósi þess að skattkerfið okkar verði sem skilvirkast, gagnsæjast og einfaldast.

Ég vil jafnframt koma inn á það hér að þetta mál er í fullum takti við það sem kemur fram í stjórnarsáttmála um að efla íþrótta-, æskulýðs- og öldrunarstarf og skoða beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.