149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[15:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, einmitt, ég man eftir þessu máli hv. þingmanns. Ætli það hafi ekki verið lagt fram á svipuðum tíma og ég lagði mitt mál fram um endurgreiðslu vegna tækjakaupa til fatlaðra einstaklinga. Þetta er stór pakki eða getur orðið það. Eins og ég sagði áðan vitum við ekkert um það. Við vitum ekki beinlínis hver þörfin er eða hverjir myndu nýta sér þetta. Hér var talað um að það yrði annars ekki byggt. Auðvitað þurfa félagasamtök alltaf á húsnæði að halda, allflest í stærri kantinum, sem myndu þá hugsanlega nýta sér þetta, en þau þyrftu jafnframt að geta fjármagnað það þó að þau fengju þessa 25% endurgreiðslu. En auðvitað skiptir hún gríðarlega miklu máli.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að það er íþyngjandi fyrir foreldra, sem eru gjarnan með börnunum sínum eins og útspýtt hundskinn að reyna að safna fyrir hinum ýmsu atburðum sem börnin taka þátt í, að standa í virðisaukaskattsskyldum rekstri í því samhengi.

Þess vegna er mjög gott að um þetta komi umsagnir.

Ég hef áhyggjur af því að ríkisskattstjóri gagnrýni þetta og segi að þetta sé ómögulegt, eins og hann gerði við mitt mál. Mér finnst líka mikilvægt að við fáum umsagnir frá þeim aðilum sem telja sig myndu nýta þetta og gætu annars ekki farið af stað í byggingar sem eru kannski afar nauðsynlegar til þess að starfsemi þeirra geti haldið áfram að dafna.