149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem þingmaðurinn nefndi þróun kosningarréttarins langaði mig rétt að nefna að 1915, þegar konur fengu kosningarrétt og hluti karla sem áður höfðu ekki haft hann, fór hlutfall þeirra íbúa sem voru á kjörskrá úr rétt um 15% upp í um 30%. Síðan hefur það hlutfall hækkað stigvaxandi. Á þessum tíma var kosningaaldurinn 25 ár, lækkaði síðan í skrefum í 21, 20 og loks 18 árið 1984 og er hlutfallið þá komið upp í 75%. Kjörskráin er þannig farin að endurspegla þjóðina miklu betur en hún gerði þá. Þessi litla viðbót sem við erum að ræða hér verður bara áframhald á þeirri þróun sem ég held að sé af hinu góða.

Ég má til með að taka undir það sem þingmaðurinn nefnir með hvatningu frá ungmennunum sjálfum. Þetta er náttúrlega fjölbreyttur hópur eins og allir aðrir en samtök ungmenna — ekki bara ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna heldur líka Ungmennafélag Íslands eða Landssamband ungmennafélaga, fjöldinn allur af samtökum úti í samfélaginu — kalla eftir þessu og hafa hvatt okkur áfram á þessari leið. Við þurfum að hlusta á það ákall. En við þurfum líka að styrkja þessi samtök til þess að þau geti haldið áfram að sinna sínu mikilvæga hlutverki.

Hér voru ungmennaráð sveitarfélaganna nefnd. Það er einmitt eftirtektarvert að þau sveitarfélög sem eru jákvæðust í umsögnum sínum í garð þessara breytinga, eins og þær birtust fyrir ári, eru einmitt sveitarfélögin sem standa sig best í því að (Forseti hringir.) vera með virk ungmennaráð sem hlustað er á. Mér dettur í hug sveitarfélagið Hornafjörður sem á fulltrúa í salnum núna.