149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Mjólkursamsalan hefur selt örsmáum keppinautum sínum mjólk á hagstæðu verði. Ég hef hins vegar líka hlustað eftir yfirlýsingum forsvarsmanna t.d. Örnu á Ísafirði sem telja sig engu að síður ekki lifa of góðu lífi undir því fyrirkomulagi markaðarins. Mjólkursamsalan hefur þann yfirburðastyrk á markaði að geta knésett hvaða keppinauta sem er og hvenær sem er í raun bara með eigin vöruframboði eða vöruþróun og hefur svo sem margoft gert það. Þegar vöruþróun hefur komið fram hjá sprotum á markaðnum hefur Mjólkursamsalan oftar en ekki komið fram með sambærilega vöru og keyrt keppinautinn í kaf. Ég veit t.d. ekki hversu oft er búið að kaupa Mjólku eða sambærileg fyrirtæki inn í Mjólkursamsöluna. (Forseti hringir.) Svo mætti spyrja hvort ekki sé tímabært eftir alla þessa hagræðingu og samþjöppun að afnema undanþáguna þannig að samkeppnislögin gildi þó alla vega án nokkurs efa um starfsemina hér eftir.