149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég er nú af því sauðahúsi að ég trúi því að ef samkeppnin er skilvirk og öflug sé ríkur hvati hjá þessum sömu afurðastöðvum til að leita hagræðis hjá sjálfum sér en ekki bara beita markaðsafli sínu gagnvart bændum og lækka afurðaverð þangað. Samkeppnin hlýtur að einhverju leyti líka að snúast um að geta fengið kjötið keypt. Þar sjáum við að samkeppnin er engin. Bændur hafa ekkert val um það hverjum þeir selja. Samþjöppunin í afurðastöðvunum er þegar orðin það mikil að aka þarf um hundrað kílómetra veg ef á að finna sér annað sláturhús að skipta við en hinn ráðandi aðila á viðkomandi markaðssvæði. Ef samkeppni væri að skila sér til bænda hefði verðlækkunin kannski ekki orðið jafn mikil og raun bar vitni. Ég tók eftir því, eins og hv. þingmaður, að þetta virtist ekki skila sér til neytenda, (Forseti hringir.) en það hefði kannski sett aukinn þrýsting á afurðastöðvarnar sjálfar að finna aðrar og betri leiðir til að hagræða hjá sér.