149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt mjög áhugaverður vinkill í þessu. Í fyrsta lagi má nefna þá staðreynd, eins og kom fram í nýlegri frétt, að afurðastöðvarnar sjálfar flytja inn liðlega 40% af því kjöti sem flutt er inn árlega. Þær stýra þá væntanlega sjálfar því talsvert hvaða gæði eru á þeirri vöru, en mér finnst alltaf dálítið kómískt að sömu aðilar séu síðan að segja að þetta sé okkur stórkostlega skaðlegt og ætti náttúrlega helst að banna þennan innflutning með öllu. Mér finnst ótrúverðugt að hagsmunaaðilar sem hafa þann málflutning uppi að innflutt kjöt sé okkur hættulegt standi um leið að þeim sama innflutningi. Mér þykir mjög alvarlegt ef þeir flytja inn gegn betri vitund baneitraða vöru, eins og má stundum ætla af málflutningi þeirra. Og ef við ætluðum að stýra hér viðskiptahöftum eða innflutningshöftum út frá lýðheilsusjónarmiðum almennt myndum við náttúrlega um hæl banna allan innflutning á áfengi, tóbaki eða sykri, svo dæmi sé tekið. (Gripið fram í: Jess.) Nú erum við að tala saman.

Það er alltaf spurningin: Ætlum við að ná fram lýðheilsumarkmiðum með fræðslu eða boðum og bönnum? Við höfum upplifað það í gegnum áratugina að bönn virka ekki endilega neitt sérstaklega vel í þessu samhengi, en fræðsla gerir það. Okkur hefur tekist að draga stórlega úr reykingum með verðlagningu og fræðslu. Við getum líka nálgast áfengi með svipuðum hætti með fræðslu og gerum það vissulega í verðlagningunni. Það mætti alveg skoða að gera slíkt hið sama þegar kemur að skaðlegri vöru, t.d. mjög sykraðri vöru. Mér finnst að við eigum hikstalaust að skoða það alvarlega hvort alvarleiki þess út frá lýðheilsusjónarmiðum sé á pari við t.d. áfengi og tóbak. Ég myndi klárlega ekki (Forseti hringir.) setja kjötið þar en ég hygg hins vegar að með föstum stuðningi við bændur til áframhaldandi framleiðslu og vöruþróunar eigi innlent og hreint kjöt að eiga hér mjög góðan og sterkan markað af því að við viljum holla, góða og heilnæma vöru. Mér finnst ekkert betra sjálfum en gott, íslenskt lambakjöt á (Forseti hringir.) grillið.