149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Í gær, þriðjudaginn 29. janúar, var greint frá því að hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefði sent Landspítalanum og öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum tillögur að níu tilteknum atriðum eða aðgerðum til að stuðla að því að bæta úr skorti á hjúkrunarfræðingum. Þar eru tíundaðir ýmsir þættir er lúta að starfsumhverfi, endurmenntun, tækjabúnaði og heilsueflingu. Það sem vekur einna helst athygli er að í bréfinu er ekki minnst einu orði á launakjör hjúkrunarfræðinga. Ekki er heldur fjallað um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks, sem lengi hefur verið kallað eftir. Það sem næst því kemst er í níunda punkti, með leyfi forseta:

„Endurskoða aðra þætti vinnufyrirkomulags, svo sem að tími til fataskipta fyrir og eftir vakt verði virkur vinnutími og metinn til starfshlutfalls/vinnutíma.“

Það eru nú öll ósköpin. Nú má ekki skilja mig sem svo að þeir þættir sem þarna koma fram séu ekki mikilvægir og þurfi ekki að bæta, síður en svo. Starfsumhverfi og allur aðbúnaður starfsmanna hefur mjög mikið að segja. Það að fjölga verknámsstöðum, að tími til að sinna kennslu sé tryggður og að tækjabúnaður styðji við að hægt sé að veita eins góða þjónustu og þekking leyfir og skapa góðar vinnuaðstæður, eru allt frábærir þættir. En sé hins vegar hugsunin sú að ná til þess stóra hóps hjúkrunarfræðinga sem í dag sinnir öðrum störfum utan heilbrigðiskerfisins, er alveg klárt að launakjör og lengd vinnuvikunnar er það sem telur.

Eins og staðan er í dag þarf að ná menntuðu fólki inn á heilbrigðisstofnanirnar til að geta fjölgað verknámsstöðum, til þess að geta sinnt kennslunni með góðum hætti, sem mun þá fjölga útskrifuðum hjúkrunarfræðingum og öðrum í heilbrigðisstétt, sem vonandi geta hugsað sér að starfa á stofnunum þar sem launakjör, vinnutími og vinnuaðstaða er samkeppnishæf við önnur störf.