149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Bjartur Aðalbjörnsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hlaut að koma að því. Að nýju er það orðið helsta keppikefli Sjálfstæðisflokksins að koma bönkunum í hendur einkaaðila. Fyrirhugað einkavæðingarferli er leitt áfram af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem getur ekki beðið eftir því að bankarnir verði einkavæddir. Í því á að drífa einn, tveir og þrír. Ríkið má ekki hagnast öllu lengur á bönkunum heldur þarf að koma gróðanum fyrir í vösum auðmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt utan um einkavæðinguna síðast og ég er ekki viss um að þjóðin treysti flokknum til að gera það aftur. Hægri menn líta á það eins og náttúrulögmál að arðbærustu fyrirtæki og stofnanir séu í einkaeign en það er ekkert óheilbrigt við að ríkið eigi banka. Þjóðin vill eiga a.m.k. einn ríkisbanka. Við skulum ekki gleyma því að Landsbankinn tók til starfa árið 1886. Hann lifði af tvær heimsstyrjaldir og heimskreppu, aflasveiflur og hrun á mörkuðum, pólitísk átök, haftatíma og mestu verðbólgu í Evrópu. Það eina sem hann lifði ekki af var einkavæðing. Það tók eigendur bankans rúmlega fimm ár að keyra hann í þrot.

Í gær deildi ég mynd á Facebook af afa mínum, Tryggva Gunnarssyni, sem var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á níunda áratugnum. Hann var Sjálfstæðismaður af gamla skólanum. Hann virti frelsi einstaklingsins en vissi jafnframt að ríkið væri traustur grunnur fyrir mikilvægustu samfélagsstofnanir okkar. Hann var á móti einkavæðingu bankanna. Ég held að sú skoðun sé ríkjandi í þjóðarsálinni. Venjulegir Íslendingar vilja ekki að fjárfestar séu að maka krókinn á einkavæðingu ríkisstofnana. Kona ein setti athugasemd við Facebook-færsluna mína í gær þar sem hún sagðist vera komin með nóg af frjálshyggjukjaftæði og vísaði til stefnu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hún bætti svo við: Hvers vegna þarf alltaf að einkavæða allt?

Virðulegi forseti. Samfylkingin telur ekki tímabært að ræða sölu banka. Sporin hræða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)