149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga orðastað við mig um þessi gríðarlega mikilvægu mál. Borgarlína er orðið eitt af þessum hugtökum sem fara að lifa sjálfstæðu lífi og allt í einu fer fólk að hafa skoðun á heiti fyrirbærisins, kannski frekar en því sem þar liggur undir. En staðreyndin er einfaldlega sú að ef við ekki grípum til róttækra aðgerða til að byggja upp háhraða almenningssamgangnakerfi horfum við fram á það að til ársins 2033, sem er nú bara handan við hornið, forseti, verði umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu um 25% meiri en í dag. Þetta er ekki ef við gerum ekki neitt, þ.e. við ætlum ekki að hætta að leggja vegi. Þetta verður reyndin ef við förum í allar þær stofnvegaframkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í. Þrátt fyrir að við gerum það verða tafir þá á höfuðborgarsvæðinu um 25% meiri en í dag.

Hvers vegna, forseti? Jú, vegna þess að umferðarspá sýnir að verði umferðin eftir þrettán, fjórtán ár eins og hún er í dag, þ.e. sama hlutfall af einkabílum, sama hlutfall í almenningssamgöngum o.s.frv., mun heildarumferðin aukast um ríflega 40%.

Við höfum byggt höfuðborgarsvæðið þannig upp, forseti, að það byggist fyrst og fremst á því að við förum á milli staða á einkabíl. Síðustu ár hefur verið reynt að vinda ofan af þessu með því að bjóða upp á annan valkost. Þeir sem kjósa að nota einkabílinn gera það vissulega áfram en þeir sem kjósa að ferðast á annan og umhverfisvænni máta hafi fleiri kosti til þess. Þannig var gerður samningur um styrk á hverju einasta ári til uppbyggingar almenningssamgangna, 1 milljarð í 10 ár, fór reyndar niður í 900 milljónir. Við höfum því verið að hugsa eftir þessum nótum. En þetta er einfaldlega ekki nóg. Það þarf að grípa til róttækra aðgerða. Það að við förum fleiri á milli staða með almenningssamgöngum gagnast nefnilega öllum, líka hinum sem af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum geta ekki hugsað sér að nýta sér almenningssamgöngur. Færri bílar á götum borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins þýðir einfaldlega að fyrir þau sem eftir sem áður kjósa að fara um á einkabílum er leiðin greiðfærari.

Forseti. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þau snúa að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Það er morgunljóst að við náum trauðla slíkum markmiðum ef okkur tekst ekki að breyta ferðavenjum, draga úr því hvernig við ferðumst um á einkabílum, því að á þessum skamma tíma getum við varla búist við því að orkuskipti verði orðin að fullu. Orkuskipti eru góðra gjalda verð en það er annars konar mengun af umferð. Hún hlýst af hjólbörðum sem snúast eftir malbiki. Hún er jafn mikil sama hvort bíllinn er keyrður áfram af rafmagni eða bensíni.

Sjálfkeyrandi bílar hafa oft verið nefndir, að við þurfum ekkert að efla einhverjar almenningssamgöngur. En sjálfkeyrandi bílar menga jafn mikið og bílar með bílstjóra.

Öll rök hníga að því að við eigum að ráðast í alvöruuppbyggingu borgarlínu. Þess vegna er ánægjulegt hve ríkisstjórnin hefur tekið vel undir það, skrifað undir viljayfirlýsingu með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna langar mig að vita, virðulegur forseti, hvernig ríkisstjórnin mun beita sér enn frekar fyrir því að hægt verði að hefjast handa við borgarlínu og hvenær megi reikna með að fyrstu áfangar við hana hefjist. Það hefur rætt um að mögulega verði tekin upp einhvers konar veggjöld. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það svigrúm sem þar skapist, ef af öllu þessu verður, muni hafa áhrif á uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Svo langar mig að fókusa hérna í blálokin á uppbyggingu (Forseti hringir.) og stuðning við almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér?