149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[15:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum almenningssamgöngur og vil ég þakka fyrir þessa umræðu sem er brýn og alltaf gaman að ræða samgöngumál.

Ég vil að við horfum á almenningssamgöngur í víðu samhengi og tökum alla samgöngumáta saman af því að allir hafa áhrif hver á annan. Samgöngur tengjast allar innbyrðis. Við þurfum að tala um þær sem heild. Almenningssamgöngur eru ekki bara strætisvagnar í þéttbýli heldur líka rútuferðir á milli þéttbýlisstaða um dreifbýlið og mikilvægt að þetta tvennt tengist saman og þeir sem koma með rútunni í þéttbýlið geti þá haldið áfram að nýta sér sama fararskjóta innan þéttbýlisins. Einnig á það við þá sem nýta sér innanlandsflugið, sem ég tel vera stærstu almenningssamgöngur Íslands. Flestir einstaklingar á Íslandi sem nota almenningssamgöngur eru í flugi. Þó að farþegatölurnar séu kannski ekki hæstar eru hvergi fleiri hausar en í flugi.

Umhverfisvænar almenningssamgöngur tryggja fólki sem býr úti um land aðgengi að mikilvægri þjónustu. Svo megum við ekki heldur gleyma ferjunum. Allt þarf þetta að tala saman, almenningssamgöngur í þéttbýli og dreifbýli, ásamt fluginu og ferjunum.

Eins og minnst var á áðan sýnir umferðarspáin að umferðin er bara að aukast og þess vegna er rétt þegar við erum að móta og hugsa skipulagið núna að taka frá svæði sem þarf fyrir þessa auknu umferð, hvort sem hún er almenn umferð, almenningssamgöngur, hjólandi eða gangandi. Við megum ekki gleyma þeirri breytingu að við höfum fjölgað hjólastígum og göngustígum og öðru slíku og höfum staðið okkur vel í því. En þetta er sami markhópurinn og við erum að berjast við að fá inn í almenningssamgöngurnar. Með því að efla þann þátt að fleiri geti haft tækifæri á að hjóla og ganga í vinnuna þá minnkar kannski mengi þeirra sem við erum að reyna að fá inn í almenningssamgöngurnar. Við eigum þó enn þá nóg af mengjum til þess að fá þangað inn. En ég vildi bara hafa nefnt þetta (Forseti hringir.) að það er mikilvægt við hönnun og skipulag á almenningssamgöngum að tekið sé mið af því að fyrirkomulag þeirra getur breyst með tímanum.