149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

almenningssamgöngur og borgarlína.

[16:16]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“

Þann 7. júní á síðasta ári átti ég samtal við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér á Alþingi þar sem ég spurði hann út í þessi fyrirheit ríkisstjórnarinnar um stuðning við borgarlínu. Í svari sínu sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Hvað getur maður annað sagt en að þetta samtal sé afskaplega skammt á veg komið?“

Þriðjudaginn í síðustu viku, þann 22. janúar, ræddi hæstv. forsætisráðherra frekar um aðkomu ríkisins að undirbúningi borgarlínu. Vísaði hún til fjármögnunar borgarlínu í samgönguáætlun og til viljayfirlýsingar ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun sem liggur fyrir, þótt ekki hafi verið lokið við endanlega útfærslu á fjármögnun af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Það virðist því sem svo að frá því að ég átti þetta samtal við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi viðræðurnar sannarlega þróast og nú sé vilji ríkisstjórnarinnar til að koma að fjármögnun borgarlínu orðinn skýrari. Það eru að sjálfsögðu gleðifréttir enda hefur nauðsyn á úrbótum í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu orðið ljósari með ári hverju.

Almenningssamgöngur skipta nefnilega miklu máli fyrir íbúa en það má ekki vanmeta mikilvægi þeirra í sambandi við loftslagsmál. Loftslagsmálin eru eitt það brýnasta verkefni sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir og er mikilvægt að við höfum þau alltaf í forgrunni við alla ákvarðanatöku. Í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ frá 2017 kemur fram að uppbygging borgarlínu muni leiða til þess að losun gróðurhúsalofttegunda muni dragast saman um 29.000 tonn koltvíoxíðsígilda. Það er verðugt markmið og undirstrikar enn betur mikilvægi þess að hefja framkvæmdir við borgarlínu og að ríkið komi að fjármögnun verkefnisins með afgerandi hætti.