149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það stöðumat sem liggur til grundvallar þá höfum við í höndum fjöldamargar skýrslur, frá McKinsey, frá Boston Consulting, frá Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum. Í raun ber allt að sama brunni, þ.e. það eru sambærilegar og svipaðar athugasemdir sem koma fram. Hins vegar er það alveg hárrétt, og mikilvæg ábending hjá hv. þingmanni, að við þurfum að gera miklu betur í því á Íslandi almennt, og þá er ég ekki bara að tala um heilbrigðiskerfið heldur um velferðarþjónustuna alla, að við vitum nákvæmlega hvað við erum með í höndunum og hvaða gögn við erum að miða við þegar við leggjum af stað og hvaða mælikvarða við ætlum að nota þegar við ætlum að skoða hvort við höfum náð árangri eða ekki. Og það er því miður ekki bara heilbrigðisþjónustan sem þarf að gera betur þarna. Þess vegna er það hluti af heilbrigðisstefnunni hér að fara í ítarlega vinnu sem tengist skilvirkum þjónustukaupum, sem auðvitað er byggt á því að við séum með gögn í höndunum. (Forseti hringir.) Gæðavinnan er líka byggð á gögnum. Þannig að hvert (Forseti hringir.) sem litið er í þessari vinnu þurfum við að auka og bæta verulega gagnasöfnun og gagnavinnslu.