149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem er hið ágætasta plagg svo langt sem það nær, og mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla. Ég verð samt að viðurkenna að hvað efnið varðar þykir mér þessi tillaga ekki mjög bitastæð og nokkuð ljóst að heilbrigðisáætlun heilbrigðisráðherra, sem samkvæmt þessu er væntanleg í haust og þaðan í frá á hverju ári til fimm ára í senn, er það sem mark skal taka á. Þar verður pólitíkin og fyrirætlanir ráðherra væntanlega í einstaka flokkum, yfirlýst markmið, aðgerðabindingar og þess háttar. Þá velti ég fyrir mér hvort þetta sé sú nálgun sem við erum sátt við, þ.e. þetta mikla samráð um tiltölulega innihaldsrýrt plagg og síðan er ráðherra með frjálsar hendur í framhaldinu um nánari útfærslu, jafnvel án aðkomu þingsins. Ég vil alla vega velta þessu upp af því ég átta mig ekki alveg á því hvert framhaldið er.

Ég er ein þeirra sem hafa aðkomu að málinu í gegnum velferðarnefnd sem áheyrnarfulltrúi þar og hlakka til vinnunnar þar. Mig langar að ræða nokkra þætti frekar.

Í upphafi er hér talað um tilteknar áskoranir og mig langar að nefna sérstaklega það sem setja má undir hatt lífsstílstengdra sjúkdóma af því að heilbrigðismál snúast líka um fyrirbyggingu sjúkdóma. Ég hefði viljað sjá þessum hatti gert hærra undir höfði með markmiðum og aðgerðabindingu. Það kemur vonandi síðar. En ég vil þó fagna orðum hæstv. heilbrigðisráðherra áðan um að það sé mikilvægt að hlaupa ekki eftir fyrirsögnum dagsins vegna þess að það er staðreynd að lífsstílstengdir sjúkdómar eru ein algengasta orsök heilsutaps í okkar heimshluta. Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni og eru einfaldlega langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Við þurfum að blása til sóknar í þessum málaflokki og hér er ábyrgð stjórnmálamanna mikil vegna þess að átakið sem fylgir svona áherslum og verkefnum og ávinningurinn sem af því hlýst verður einfaldlega ekki mælt í einu kjörtímabili. Það þarf kjark til að horfa til lengri tíma. Það er þar sem almannahagsmunir liggja nú.

Þetta ágæta plagg er brotið upp í nokkra málaflokka og margt gott þar að finna þótt ég ítreki gagnrýni mína á það sem virkt stefnumótunarplagg með markmiðum, gögnum og aðgerðabindingu o.s.frv., og einhverjum skrefum áfram. Í flokknum Forysta til árangurs hefði ég t.d. viljað sjá sjúklinga nefnda, notendur kerfisins, og rétt þeirra til að hafa val um veitendur þjónustunnar, rétt þeirra til að koma að málum þegar framtíðarskipulag heilbrigðismála er unnið og að þarfir þeirra og óskir séu ofarlega á lista í þeirri vinnu, það liggi þarfagreining frá þeim að baki þegar gengið er frá skipulagi heilbrigðisþjónustu og fjármögnun einstakra þjónustuþátta.

Áfram með þjónustuna. Í kaflanum Rétt þjónusta á réttum stað er talað um að heilbrigðisþjónustan verði skilgreind sem fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs þjónusta. Fyrsta stigið er heilsugæslan, sem er gott og mikilvægt markmið, og er reyndar kannski það sem menn hafa náð einna lengst með, það er hvað lengst komið og fullkomlega eðlilegt að byrja á fyrsta stiginu. Síðan er það annars stigs þjónusta sem er skilgreind sem sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa og svo er þriðja stigið Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri. Raunar má segja að annars stigs þjónustan sé þá allt annað en heilsugæslan á fyrsta stigi og Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri á þriðja stigi. Það kemur fram í stefnunni að sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu sé fyrst og fremst um að ræða sjálfstætt starfandi sérfræðinga, en þetta stig eigi þó ná til meira eða minna allra heilbrigðisstofnana landsins fyrir utan þessar tvær stóru stofnanir. Annað stigið er því orðið ansi stórt og viðamikið, heldur utan um þetta allt; sjúkrahús úti á landi, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn af ýmsum toga, öldrunarþjónustu, heimaþjónustu, endurhæfingu, ef ég skil þetta rétt. Enn fremur er ljóst, og það er kannski punkturinn sem mig langar að koma að, að þarna er töluverð skörun vegna þess að þjónustan á göngudeildum og dagdeildum spítalanna tveggja er að mörgu leyti sambærileg við sérfræðiþjónustu á læknastofum og læknamiðstöðvum.

Það sem ég myndi vilja skilja — svo sem margt sem ég vil skilja, en alla vega í þessu samhengi — er af hverju þjónustan sjálf ræður ekki för við þessa flokkun heldur þjónustuveitandi, uppruni hans. Ég velti því upp: Ef það er viljandi gert að nota tegund eða uppruna þjónustuveitandans, rekstrarformið, sem aðalatriði, þá skil ég ekki hvert raunverulegt hagræði er af því. Það er spurning sem ég hlakka til að kafa nánar ofan í, bara til að átta mig á þessu, því ég skil vel þessa flokkun. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þetta ræður för. Helst af öllu myndi ég vilja að skipulag heilbrigðisþjónustunnar væri á þann veg að á sem flestum sviðum hefðu sjúklingarnir val um þjónustuveitendur. Smæð okkar ágæta samfélags gerir auðvitað að verkum að það er ýmislegt sem fellur undir starfsemi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem verður ekki gert annars staðar, en að sama skapi eru gráu svæðin fjölmörg og þeim fer fjölgandi með tækninýjungum ýmiss konar sem geta og munu gjörbreyta því hvernig við nálgumst heilbrigðismálin heilt yfir. Ég myndi vilja sjá þróun á þessari annars stigs þjónustu og vonandi verður sú þróun í samræmi við þarfir og val þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda, en ekki í samræmi við óskir heilbrigðisyfirvalda hverju sinni og allra síst í samræmi við óskir núverandi þjónustuveitenda á fyrsta og þriðja þjónustustigi. Ég er sem sagt að tala um möguleika fólks á að njóta a.m.k. í sama mæli og nú þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga ef það kýs og ef þessir aðilar uppfylla sömu skilyrði um gæði, öryggi og kostnað og ríkisreknir aðilar innan okkar ágæta kerfis. Markmiðið ætti að mínu viti að vera sátt og samvinna á milli ólíkra aðila og sátt um það hvar ákveðnum verkefnum sé sinnt og vonandi er það það sem stefnt er að.

Talandi um tækninýjungar og breytingar, það má líka velta því upp hér hvernig fjarlækningar, sem eru sérstakt áhugamál mitt, falla inn í þessa þrepaskiptingu heilbrigðisþjónustunnar, undir hvað þær heyra. Ég sé ekki betur en að ef við berum gæfu til að nýta okkur tækifæri fjarlækninga þá séum við a.m.k. að máta hana við tvö af þessum þremur stigum. Og hvernig gerum við það? Ég er náttúrlega komin hérna í vanda með þetta allt saman.

Í stefnunni er komið inn á mönnunarvandann. Hann er náttúrlega mjög stórt úrlausnarefni, svo stórt að það er ekki á færi hinna færustu heilbrigðisráðherra að leysa það einir og óstuddir. Það er bara þannig. Þetta er samfélagsmál. Vandinn hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga, og ég get ekki annað en notað tækifærið hér og vakið athygli á tillögu okkar ágæta þinghóps Viðreisnar ásamt fleiri góðum samþingmönnum þar sem við tölum um að leggja í það átak að jafna kjör kvennastétta. Þetta eru að miklu leyti kvennastéttir, ég minni á það. En það eru alls ekki bara launin sem skipta máli varðandi mönnunarvanda, kulnun í starfi meðal heilbrigðisstarfsstétta verður sífellt meira aðkallandi úrlausnarefni. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kafa ofan í ástæðurnar fyrir því, vegna þess að svörin þar gætu orðið mikilvægt leiðarljós í stefnumótunarvinnunni í heilbrigðiskerfinu. Við erum með fagstéttir þar sem gríðarleg menntun liggur að baki. Það þarf hugsjónir í þetta starf og svo erum við að kljást við kulnun, þannig að lausnin er þar.

Ráðherra hefur ítrekað sagt, síðast í ræðustól áðan, að hún hafi ekki áhuga á að útrýma einkareknum hluta heilbrigðiskerfisins heldur styrkja ríkisrekna hlutann. Þannig skil ég a.m.k. ráðherra, þótt hún noti orðalagið að styrkja hið opinbera kerfi. Það er aukaatriði. Ég minni bara á að heilbrigðiskerfið er opinbert kerfi. Um það ríkir samfélagsleg sátt. Og innan þess kerfis þurfa að mínu mati að þrífast mismunandi form, ekki formsins vegna heldur vegna þess að það er þannig sem kerfið þjónar notendum sínum best.

Íslenskt heilbrigðiskerfi er til fyrir notendur. Það ber ekki vitni um góða þjónustu að koma í veg fyrir að notendur hafi val ef það er mögulegt. Markmiðið á að vera að veita heilbrigðisþjónustu eftir þörf og leiðarljósið ætti að vera sjúkratryggingaréttur landsmanna, ekki skipulag þjónustuveitanda. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf starfsfólk. Mönnunarvandinn verður ekki leystur með því að takmarka starfsmöguleika heilbrigðisstarfsfólks í einu ríkisreknu móti. Íslenska heilbrigðiskerfið þarf nýsköpun. Það þarf að vera fljótt að tileinka sér tækninýjungar. Og dæmin sýna alls staðar frá, ekki bara innan heilbrigðisgeirans, að það gerist frekar á stöðum þar sem fólk getur hlaupið hratt og hefur hvata til þess. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf að nýta fjármagnið vel. Einokun þjónustuveitenda, sama hvaða nafni þeir nefnast og sama hvaða þjónustu þeir veita, er mjög ólíklega leiðin til þess. Fjölbreytileiki er svarið svo lengi sem tryggt er að allir þurfi að gangast undir sömu gæðakröfur og séu fjármagnaðar á sama hátt.

Að lokum langar mig að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera svona tímanlega í að leggja fram þetta plagg og gefa okkur í velferðarnefnd Alþingis þannig tíma til að vinna málið vel. Ég veit að hæstv. ráðherra mun verða boðin og búin til að aðstoða okkur við þá vinnu og samstarf nefndarinnar við hana verður áfram í góðum farvegi.