149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér í fyrsta skipti um mótun heilbrigðisstefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Það má fagna því að hún sé komin fram. Fjárveitingar í fjárlögum 2019 til heilbrigðismála eru 230 milljarðar, ef ég man rétt, af um 803 milljörðum í rekstri ríkisins, þannig að við sjáum að þetta er gríðarlega mikilvægt plagg, að það sé til stefna um það hvernig við ætlum að standa að málum. Síðan getum við rætt um það hversu ítarleg hún eigi að vera og hvort hún eigi að vera efnismeiri. Ég hallast að því að við gerum það með tíð og tíma, hún verði efnismeiri og framsetningin kannski nákvæmari í einstökum þáttum.

Þetta er viðamikið verkefni og hægt að ræða marga punkta varðandi heilbrigðisstefnu, en ég hafði fyrst og fremst hugsað mér að ræða kafla 2, Rétt þjónusta á réttum stað, og einstaka punkta eða stefnumið í þeim hluta. Þar kemur m.a. fram í 2. punkti að heilbrigðisþjónusta verði skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta, þ.e. heilsugæslan, annars stigs þjónusta er sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss og þriðja stigs þjónusta eru háskólasjúkrahús.

Í 5. punkti er talað um að heilsugæslan eigi að taka virkan þátt í heilsueflingu og bjóða upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa. Þetta er kannski einn af allra stærstu punktunum í verkefninu á næstu árum, þær lífsstílsbreytingar sem hinn vestræni heimur er að fara í gegnum þessi árin og hefur gríðarlega mikla þýðingu í heilbrigðiskerfinu og skapar víða kostnað þar. Það er stórt og mikið atriði og mætti í sjálfu sér vera heil skýrsla eða stefnumótandi plagg um þessa þætti. Ég held að þetta og náttúrlega öldrun þjóðarinnar verði stóru málin á næstu árum og áratugum að takast á við í rekstri heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Það sem ég ætla að leggja mesta áherslu á er 7. punkturinn. Þar segir að aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði jafnað með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum. Það tengist kannski 9. punkti, að byggingarframkvæmdum Landspítalans við Hringbraut og við Sjúkrahúsið á Akureyri verði lokið með góðri aðstöðu til að veita bráða og valkvæða heilbrigðisþjónustu og öfluga þjónustu á dag- og göngudeildum. Svo er það 10. punkturinn, um hlutverk Landspítalans sem háskólasjúkrahúss, það verði styrkt, þar verði veitt hátækniþjónusta og einnig þriðja stigs þjónusta sem ekki sé hægt að veita annars staðar á landinu.

Þá erum við komin að þessu stóra atriði sem er hlutverk Landspítalans að sinna öllu landinu þegar mest á reynir. Ég hef velt mikið fyrir mér á undanförnum árum samspili sjúkraflugs, með flugvélum og þyrlum, við háskólasjúkrahúsið í Reykjavík sem tekur allra erfiðustu tilvikin sem koma upp í heilbrigðisþjónustunni, alvarlegustu slysin og alvarlegustu hlutina, sem tengjast oft hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og slíkum þáttum, tauga- og mænuáverkum og slíku og fyrirburum. Landspítalinn hefur fyrst og fremst sinnt því fyrir allt landið, alvarlegustu tilvikunum. En þegar við skoðum stefnu ríkisins, og eftir þessu hef ég leitað lengi, þá eru engin plögg eða stefnumarkandi áætlanir af hálfu ríkisins um sjúkraflugið í landinu, hvernig eigi að tryggja það og aðgengi landsbyggðarinnar að öflugustu sjúkrahúsþjónustu okkar. Í þessu plaggi hér, þessari heilbrigðisstefnu, þá er þetta eina setningin sem ég sé sem snýr að þessu, aðgengi jafnað með vel skipulögðum sjúkraflutningum.

Á síðasta ári voru farin rúm 800 sjúkraflug á Íslandi. Ég held það hafi verið fluttir um 830, 840 manns með sjúkraflugvélum og væntanlega 130, 140 með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Undanfarin ár hefur Landhelgisgæslan sinnt um 15–20% af þeim tilvikum sem koma upp þar sem þörf er á sjúkraflugi, 80–85% hefur verið sinnt með sjúkraflugvélum.

Ég vil leggja það til að í þessari vinnu verði meiri áhersla lögð á sjúkraflutningana, þann þátt sem snýr að 7. punktinum í 2. kafla í þessari heilbrigðisstefnu, að skýra betur hvert ríkið ætlar að fara með þessari vinnu, hvert menn ætla að halda. Fyrr í dag talaði einn okkar ágætu hv. þingmanna um háhraðaalmenningssamgöngur. Eigum við að tala um háhraðasjúkraflutninga, sem eru þá í lofti? Ég veit ekki hvort menn kaupi þetta nýyrði, en mér finnst mikilvægt að betur sé tekið á þessu.

Helmingurinn af sjúkrafluginu er F1 og F2 flutningur, þar sem fólk er í lífsógn eða lífshættu. Það eru rúmlega 400 manns, bara með flugvélum, sem eru í þessari stöðu, og síðan náttúrlega hjá Landhelgisgæslunni.

Í 8. kafla í þessu ágæta plaggi sem við ræðum hér er getið um framkvæmd heilbrigðisstefnunnar til 2030 og gert ráð fyrir að aðgerðaáætlanir séu unnar til fimm ára. Það er hið besta mál, en væri fróðlegt að vita hvernig þær eru hugsaðar og hversu ítarleg þau plögg eiga að vera til að fylla inn í stóru myndina. Það er full nauðsyn á að efla þessa stefnumótandi vinnu þannig að hún sé skrifuð niður. Ætli það séu ekki á þessu ári um 27–28% af fjárlögum ríkisins sem fara í þennan þátt í rekstrarútgjöldum ríkisins. Við erum að vinna þetta með lögum um opinber fjármál og slíka þætti og þarna held ég að sé verk að vinna, að efla stefnumótunina tengt þessu.

Ég hefði áhuga á því að sérstaklega yrði getið um það í þessu plaggi hvernig menn ætla að bregðast við í ferðaþjónustunni og hvernig hún kemur inn í þetta allt hjá okkur. Það sem ég er hræddastur við í stórslysum á Íslandi eru rútuslys og hvernig við ætlum að takast á við það sem gæti hugsanlega gerst og verður örugglega einhvern tímann á næstu árum, þar sem 50–80 manns gætu stórslasast í einu slysi. Hópslys og slíkir þættir, ég held að það sé nauðsyn fyrir okkar litla heilbrigðiskerfi að tekist sé á við það í þessari vinnu.

Ég hef líka haft mikinn áhuga á því að ýmsar áætlanir ríkisins séu unnar betur saman og samþættar, eins og þessi heilbrigðisstefna, samgönguáætlun og það sem við samþykktum í júní sl., stefnumótandi byggðaáætlun. Það koma ýmsir punktar fram í því plaggi sem við samþykktum þá, um stefnumótandi byggðaáætlun, t.d. í II. kafla, Markmið, áherslur og mælikvarðar. Markmið stjórnvalda er að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Síðan eru taldar upp ýmsar áherslur sem eiga að leiða til skilgreindra aðgerða eða eru til að samþætta við aðrar aðgerðir og bæta áætlanagerð. Þar eru atriði sem eru býsna áhugaverð fyrir vinnuna við heilbrigðisstefnu, eins og l-liður A í II. kafla, þar sem sagt er að heilbrigðis- og velferðaráætlanir fái þinglega meðferð sem opinberar áætlanir, grunnþjónusta heilbrigðis- og velferðarþjónustu verði skilgreind sem og hvernig réttur landsmanna til hennar verði tryggður óháð búsetu. Heilbrigðisáætlanir lýsi glögglega fyrirhuguðum starfsháttum og samstarfi heilbrigðisstofnana. Í m-lið segir: „Mótuð verði stefna um opinbera þjónustu með það að markmiði að íbúar landsins, óháð búsetu, njóti sama aðgengis að grunnþjónustu.“ Svo kemur fram í n-lið að öruggir sjúkraflutningar um land allt verði tryggðir.

Þegar við skoðum ýmis plögg ríkisins þá eru þau oft unnin sem einhvers konar eyjar hér og þar. Það sem vantar oft upp á er að ýmis plögg séu samþætt og þær stefnur sem ríkið mótar á ýmsum sviðum, þar sem væri miklu eðlilegra að fá heilsteyptari mynd af því að hverju er verið að vinna með plöggunum þannig að það verði til einhvers konar heildarsýn, einhver landsýn á þetta allt saman.

Þetta er stórt efni sem við ræðum hér og hægt að fara víða. Tíminn búinn. Við eigum örugglega eftir að halda áfram með mikla umræðu um þessi mál hér í þingsal.