149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

efling iðn- og verknáms.

[11:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við þekkjum þá umræðu að vöntun sé á iðnaðarmönnum. Það kemur reglulega fram í fjölmiðlum, „skortur á iðnaðarmönnum“ sjáum við sem fyrirsagnir í blöðum o.s.frv. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að efla eigi iðn- og verkgreinar með stórsókn í menntamálum í þágu fjölbreyttara atvinnulífs og betra samfélags. Þetta eru að sjálfsögðu göfug markmið og yfirlýsingar en hvort það nægi til að breyta einhverju í tengslum við að auka áhuga á iðnmenntun verður tíminn að leiða í ljós. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hefur kallað eftir réttmætri virðingu iðnnáms og að viðhorfsbreyting verði hér á landi gagnvart iðnnámi. Við þekkjum einnig að mun lægra hlutfall nemenda hér á landi skráir sig í iðnnám en innan ríkja Evrópusambandsins, Tölur frá 2007, minnir mig, sýna að það eru einungis um 14% hér á landi á sama tíma og það eru 50% í Evrópusambandinu.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að er: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að fylgja því eftir sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og hvernig er samstarfið milli ráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins í þá veru?