149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

ÖSE-þingið 2018.

527. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2018 en formaður Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, er forfallaður í dag. Ég gegni varaformennsku og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson situr með okkur í nefndinni. Ég held að heiður skýrslunnar megi samt allan setja á fína alþjóðaritarann okkar, Bylgju Árnadóttur.

Á vettvangi þings Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, bar á árinu 2018 hæst baráttuna gegn hryðjuverkum, átökin í Úkraínu og mannréttindabrot í Rússlandi. Einnig var mikið rætt um jafnrétti kynjanna, málefni flóttamanna, loftslagsmál og netöryggi. Átökin í Úkraínu, sem hófust árið 2014, og innlimun Krímskaga var áberandi í umræðunni á þinginu á árinu. Á ársfundi sínum beindi þingið þeim tilmælum til átakaaðila að axla ábyrgð á lausn deilunnar. Kallað var eftir því að hernaðaraðgerðir í Úkraínu yrðu stöðvaðar og að rússnesk stjórnvöld féllu frá innlimun Krímskaga. Auk þess samþykkti þingið aukaályktun um mannréttindabrot á Krímskaga þar sem ofbeldi og kúgun var fordæmt gegn minnihlutahópum á svæðunum, sérstaklega töturum og Úkraínumönnum.

Landsdeild Svíþjóðar lagði fram aukaályktun á ársfundinum um mannréttindabrot í Rússlandi og var efni hennar til umræðu á samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda í maí. Í aukaályktuninni var fjallað um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og ógnir við öryggi mannréttindafrömuða í Rússlandi. Rússnesk stjórnvöld voru hvött til að rannsaka árásir gegn baráttufólki fyrir mannréttindum. Á samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltslanda var bent á að mikilvægt væri að beina sjónum að mannréttindabrotum í Rússlandi vegna þess að heimsmeistarakeppnin í fótbolta væri haldin í Rússlandi á árinu. Gagnrýnislaus þátttaka í keppninni gæti rennt styrkari stoðum undir stjórn Pútíns Rússlandsforseta og í kjölfar samþykktar aukaályktananna tveggja á ársfundinum yfirgaf landsdeild Rússlands þingsalinn.

Það var ekki léttvægt. Við sem sátum í þingsalnum urðum vör við öll möguleg og ómöguleg brögð sem hægt er að beita í fundarsköpum en algjörlega ljóst var að Rússarnir ætluðu ekki að fá þessa aukaályktun á dagskrá eða til umræðu á fundinum. Því var beitt fyrir sig að fyrsti flutningsmaður væri ekki í salnum og einhver hefði farið heim og voru ýmiss konar mál sem þurfti að útkljá til að ályktanirnar fengju að vera bornar upp. Þær voru svo samþykktar með mjög stórum meiri hluta sem olli því að Rússar ákváðu í fússi að yfirgefa salinn.

Ég ætla að ræða þetta aðeins meira á eftir en halda áfram yfirferð yfir árið okkar. Baráttan gegn róttækni meðal múslima í Evrópu var til umfjöllunar á vetrarfundi ÖSE. Bent var á þá öryggisógn sem skapaðist við það að vígamenn frá ÖSE-ríkjunum sem tekið hefðu þátt í starfi hryðjuverkasamtaka sneru aftur til heimalanda sinna. Í aukaályktun sem ÖSE-þingið samþykkti á ársfundi var mikilvægi þess að berjast gegn hryðjuverkum og róttækni ítrekað. Á haustfundi þingsins, sem haldinn var í Kirgisistan, var einnig rætt um áhrif af starfsemi hryðjuverkasamtaka í Afganistan á stjórnmálaástand og óöryggi í nágrannalöndunum.

Málefni flóttamanna voru rædd á öllum fundum ÖSE-þingsins á árinu. Á ársfundi ÖSE-þingsins í Berlín var ályktað bæði í efnahagsmálanefnd og í lýðræðis- og mannréttindanefnd um málefnið, auk þess sem samþykkt var aukaályktun um málefni barna á flótta. ÖSE-þingið hvatti aðildarlöndin til að greina og takast á við orsakir þess að fólk neyddist til að flýja heimili sín og vinna gegn glæpasamtökum sem högnuðust á neyð flóttafólks. Einnig voru aðildarlöndin minnt á alþjóðlegt bann um að flóttafólki sé vísað aftur til síns heima ef ástæða er til að ætla að það sæti ofsóknum í heimalandi sínu.

Fjallað var um mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna í tengslum við fjölmargar umræður á árinu, þar á meðal umræðu um baráttu gegn róttækni og hryðjuverkum, loftslagsmál og málefni flóttamanna. Sérstök ályktun um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi var samþykkt á ársfundi ÖSE-þingsins. Auk þess ályktuðu efnahagsmálanefnd og lýðræðis- og mannréttindanefnd um mikilvægi þess að tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum, í hagkerfinu og í umræðu um loftslagsmál. Það er hægt að segja með sanni að við fulltrúar Íslandsdeildar ÖSE-þingsins höfum ávallt í ræðum lagt áherslu á jafnréttismál, enda eru jafnréttismál ein af stoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Þetta er málaflokkur sem við leggjum ávallt áherslu á og teljum okkur hafa ýmislegt fram að færa í sem við getum deilt með öðrum þjóðum.

Meðlimir Íslandsdeildar sóttu líka árlegan hádegisverð um jafnréttismál í boði sérstaks fulltrúa ÖSE-þingsins í jafnréttismálum. Sá sérstaki fulltrúi er þingmaður frá Kanada, dr. Hedy Fry, og ég verð að viðurkenna að hún er núna ein af mínum uppáhalds kanadísku þingmönnum. Ég þekki reyndar ekki marga en þessi kona er algjörlega mögnuð og virkilega gaman að hlusta á hana halda ræður um jafnréttismál og áhugavert að sjá þá vinnu sem hún hefur lagt af mörkum innan ÖSE-þingsins til að vekja athygli á þeim mikilvægu málum.

Eitt af hlutverkum ÖSE er jafnframt að standa fyrir kosningaeftirliti, sem hefur frá upphafi verið eitt af verkefnum ÖSE-ráðsins. Kosningaeftirlitið hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og ÖSE-þingið hefur samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, eða ODIHR, um eftirlitið. Við þekkjum vel þá sem stýrir ODIHR en það er fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem gerir það með myndarbrag. Við í Íslandsdeildinni fengum tækifæri til að hitta hana og fræðast frekar um starfsemi ODIHR, sem er mjög áhugaverð, og var rætt í Íslandsdeildinni að áhugavert yrði að fá Ingibjörgu Sólrúnu til að koma hingað og kynna starfið betur fyrir öllum þingmönnum. Mig langar að nefna líka að það var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósþætti eða fréttum nýverið þar sem stofnunin og starf hennar var kynnt og þær miklu áhyggjur sem eru uppi, og ástæða er fyrir, af mannréttindabrotum og ákveðnum öfgaöflum sem virðast vera að ná fram of víða.

Við í Íslandsdeildinni skiptum þannig með okkur verkum að formaðurinn, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, er í nefnd um stjórnmál og öryggismál. Ég sit í nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson í nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál. Ég hygg að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson komi upp á eftir og fylgi betur eftir þeim málum sem hann hefur fjallað um í sinni nefnd og geri grein fyrir áherslum sínum.

Það er óhætt að segja að ÖSE-þingið sé mjög meðvitað um þá stöðu sem er uppi. Ég geri ráð fyrir því að umræða verði um það jafnvel síðar í dag, þegar við ræðum skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsins, að Rússar hafa næstum því sagt bless við stofnunina. Mikil pólitísk deila hefur verið um hversu langt eigi að ganga í að halda Rússum í þeirri umfjöllun og inni á því þingi. Í ÖSE eru Rússar enn þá fullgildir meðlimir og hafa tekið mjög virkan þátt í fundunum. Þar ber hæst að sýn þeirra virðist allt önnur en margra annarra á þá hluti sem hafa gerst. Maður situr þarna á milli þingmanna frá Úkraínu og Rússlandi og hlustar á þá segja sögu af sömu viðburðum með algjörlega ólíkum áherslum. Það er alveg ótrúlegt að upplifa hvernig þeir tveir aðilar geta séð hlutina hvor með sínum gleraugum.

George Tsereteli, forseti ÖSE-þingsins, sagði einmitt á fundinum að ÖSE stæði frammi fyrir þverrandi trausti milli aðildarlandanna og aukinni hættu á átökum milli stórveldanna. Ég held að eitt af stærstu málunum sem við þurfum að takast á við sé hvernig ÖSE-þingið ætlar að starfa áfram með hin mjög svo ólíku sjónarmið innan borðs. Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherslu á hversu mikilvægt er að allir aðilar hafi aðkomu að svona þingum þannig að við fáum að heyra öll sjónarmiðin og einhver möguleiki sé á því að ná friðsamlegri og málefnalegri lendingu í málum.

Við tökum þátt í ýmsu starfi, sérstaklega með Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, og formaður okkar, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, skrifaði undir bréf þar sem forseti ÖSE-þingsins var hvattur til þess að auka eftirlit ÖSE-þingsins með framfylgd ályktana þingsins í aðildarlöndunum. Eitt af því sem við horfum fram á í alþjóðasamstarfi er að þar fer fram mikil og góð vinna og ályktað er um ýmis mikilvæg mál, oft tekur langan tíma að koma öllum saman um lendingu í þeim efnum en svo virðist stundum vanta upp á að því sé fylgt eftir með einhverjum hætti.

Forseti ÖSE-þingsins sagðist vera sammála efni bréfsins og að helsta vandamál þingsins væri að tryggja sýnileika og framfylgd ályktana þingsins, vandamál sem þjóðþing aðildarríkjanna glímdu einnig við. Það er alveg rétt að við kvörtum stundum í þessum þingsal yfir því að hafa samþykkt alls konar þingsályktanir og svo sjáum við ekki hvenær og hvernig þeim er fylgt eftir. Þetta er örugglega eilífðarverkefni en eitt af því sem við gætum gert betur, ef við lítum í eigin barm, er að taka tíma í að ræða alþjóðaskýrslur, fara yfir þær ályktanir og eflaust mættum við gera meira af því að upplýsa samþingsmenn okkar um það sem kemur út úr fundum okkar til að mynda með ÖSE.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem ég nefndi áðan, tillögurnar frá sænsku þingmönnunum sem voru samþykktar af öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Þar var gagnrýni á Rússa, á mannréttindabrot í Rússlandi og sérstaklega þegar kemur að hinsegin fólki. Þetta var ein af þeim ályktunum sem Rússar börðust gegn að fá á dagskrá. Þeim varð sem betur fer ekki kápan úr því klæðinu og var ályktunin samþykkt.

Formaður sænsku landsdeildarinnar, Kent Härstedt, hefur starfað lengi á vettvangi ÖSE og hann lýsti áhyggjum af dvínandi samstöðu meðal ÖSE-ríkjanna um sameiginleg gildi á borð við mannréttindi og lýðræði. Hann sagði að alþjóðastofnanir þyrftu að gæta sín á því að þjóna ekki þeim tilgangi að veita vafasömum stjórnvöldum lögmæti. Ég held að sú setning rammi ágætlega inn það sem við stöndum frammi fyrir í alþjóðasamstarfi í dag.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan sit ég sjálf í nefnd um efnahags- og umhverfismál. Á haustfundi okkar, sem fram fór í Kirgisistan, tók ég til máls og sagði frá alþjóðlegri samvinnu landa á norðurslóðum. Ég benti á að loftslagsmál og frjáls verslun væru áhersluþættir í samvinnu ríkja í norðri, ekki síður en meðal Miðjarðarhafsríkja og Mið-Asíuríkja. Til að mynda var haustfundurinn svolítið tileinkaður öryggismálum á því svæði og hefur mér stundum fundist áherslan í umræðum um ÖSE vera ansi mikil á þann heimshluta, sem er að einhverju leyti skiljanlegt. Til að fylgja því eftir sem við ræddum áðan um norðurslóðamál er þetta málaflokkur sem ég held að skipti okkur öll máli sem búum á jörðinni. Við Íslendingar eigum að vera dugleg að tala fyrir norðurslóðamálum á alþjóðavettvangi og mikilvægi friðsamlegs samstarfs á sviði vísinda og rannsókna á því svæði.

Í ræðu minni lagði ég áherslu á að loftslagsbreytingar væru ein stærsta ógnin gegn friði í heiminum og að ríkisstjórn Íslands hefði sett sér metnaðarfulla stefnu til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá árinu 2030 og stefnt væri að því að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040. Liður í því að ná þeim markmiðum væri að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Sjálfstæði Íslands og farsæld væri grundvöllur að núverandi heimsskipan þar sem áhersla væri lögð á virðingu fyrir alþjóðalögum, frjálsa verslun, lýðræði, frjálslyndi og alþjóðlega samvinnu. Ég hvatti jafnframt aðildarríki ÖSE til að standa vörð um sameiginleg gildi og virða mannréttindi og alþjóðalög. Alþjóðalög og mannréttindi eru einna helst á dagskrá okkar og við þurfum augljóslega öll að standa okkur betur í umræðu um þau mikilvægu gildi.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en hvet hv. þingmenn til að kynna sér skýrsluna sem er viðamikil og fer mjög vel yfir starfið á vettvangi ÖSE-þingsins. Á sama tíma vil ég hvetja þingmenn til að vera virkari í umræðu um alþjóðamál og um öryggismál. Mér finnst við nýta of lítinn tíma í að ræða þau stóru og mikilvægu mál.