149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Brexit.

[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Brexit er dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hvorki stjórnmálamenn né hagsmunaöfl gengu hreint til verks heldur var augljóslega logið að bresku þjóðinni. Eftir standa stjórnmálamennirnir og reyna að leysa úr því viðfangsefni sem þar er. Það er best að koma hreint fram.

Við sjáum Theresu May reyna að ná fram meiri hluta í breska þinginu fyrir samningnum, en hann kolféll fyrir nokkrum vikum. Og það er sama við hvern við tölum, hvort sem það eru breskir þingmenn eða sendifólk á vegum breskra yfirvalda, líkurnar aukast á hörðu Brexit.

Af því að nú eru bara sjö vikur í að hugsanlega hart Brexit verði að veruleika spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur ríkisstjórnin haft eitthvert plan? Liggur fyrir áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar í þá veru að gæta íslenskra hagsmuna ef og þegar af hörðu Brexit verður? Við sjáum að hæstv. menntamálaráðherra hefur t.d. allt aðra sýn á Brexit en norski kollegi hennar sem varar beinlínis norska stúdenta við því að fara til Bretlands vegna óvissu um þátttöku Bretlands í samruna- og samvinnuáætlunum næstu árin innan ESB. Hvað veit hæstv. ráðherra menntamála og ríkisstjórnin meira en norskur kollegi ráðherra í ríkisstjórn Noregs?

Þess vegna skiptir miklu máli að íslenska ríkisstjórnin lýsi því skýrt við þingið hvernig áætlunin lítur út ef af hörðu Brexit verður. Hvernig verða íslenskir hagsmunir varðir, til að mynda í sjávarútvegi, af því að við vitum að breskar hafnir eru eins konar „millistopp“ þegar íslenskar sjávarafurðir eru settar á evrópskan markað? Hvernig getum við treyst og tryggt íslenska hagsmuni þannig að afurðir verði ekki tollaðar í yfirtolla og þar af leiðandi ekki lengur samkeppnishæfar á erfiðum mörkuðum?

Hvernig er verið að gæta íslenskra hagsmuna? Hver er áætlunin og hvernig hefur verið rætt um það í ríkisstjórn ef af hörðu Brexit verður?