149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[15:57]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, fyrir umræðuna hér í dag. Hún er mjög brýn og góð. Það sem mig langar að tæpa á að þessu sinni, þar sem verið er að huga að vanda ungs fólks á húsnæðismarkaði, er hvort ekki sé ástæða til þess að framlengja heimildarákvæði til að nýta séreignarsparnað til íbúðarkaupa sem lið í fleiri aðgerðum sem nauðsynlega þarf að ráðast í. Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom aðeins inn á það hér áðan.

Með því að greiða inn á íbúðalán með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattafsláttar og mótframlags launagreiðanda auk þess sem innborgun lækkar heildarvaxtagreiðslu og verðbætur. Við í Miðflokknum fluttum breytingartillögu við síðustu fjárlög. Hún var því miður felld en samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðum hefur þetta úrræði verið töluvert notað. Rúmlega 6.500 einstaklingar hafa sótt um úrræði vegna kaupa á fyrstu íbúð.

Í október síðastliðnum var greitt inn á lán hjá tæplega 3.000 einstaklingum og í sama mánuði bárust 408 umsóknir samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Hvað íbúðarkaup varðar hafa þeir sem nýtt hafa sér þetta úrræði getað fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í kaup á íbúð. Það er því mikilvægt innlegg að framlengja þetta ákvæði sem lið í því að leysa vanda ungs fólks á húsnæðismarkaði og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.