149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Mig langar líka til að þakka aðilum vinnumarkaðarins fyrir að vekja ríkisstjórnina af þyrnirósarsvefni sínum í húsnæðismálum. Það þurfti nefnilega kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar til að hvetja ríkisstjórnina til dáða í þessum efnum.

Minnist ég nú gagnrýni alla vega tveggja ríkisstjórnarflokka á síðustu ríkisstjórn fyrir að hafa gleymt að minnast á húsnæðismál í stjórnarsáttmála sínum, en lagt engu síður fram viðamikla aðgerðaáætlun í húsnæðismálum. Þessi ríkisstjórn mundi vissulega eftir því að minnast á þetta í stjórnarsáttmálanum en gerði svo bara ekkert með það. Það sem er eiginlega verra er að hún tók mjög góðar tillögur síðustu ríkisstjórnar í húsnæðismálum, sem voru meira og minna með sömu aðilum og standa núna að húsnæðisátaki forsætisráðherra, og stakk þeim upp í hillu, gerði ekkert með þær.

Liðið hefur rúmt ár þar sem ekkert hefur gerst í þessum efnum og virðist því miður gjarnan þurfa aðila vinnumarkaðarins til að vekja þessa flokks til athafna. Auðvitað má hafa í huga að almenna íbúðakerfið sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan er einmitt til komið að frumkvæði Alþýðusambandsins við gerð kjarasamninga 2013.

Það er margt ágætt í tillögum starfshóps hæstv. forsætisráðherra enda eru þær meira og minna samhljóða þeim tillögum sem fram komu í húsnæðissáttmála síðustu ríkisstjórnar. Þess vegna þykir mér mjög miður að þetta rúma ár hafi liðið án nokkurra aðgerða og þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á það í ræðustól í umræðu um húsnæðismál á liðnu ári að í félagsmálaráðuneytinu væru ágætistillögur og hugmyndir í samstarfi m.a. við sveitarfélögin um hvernig vinna mætti úr þessum vanda.

Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin verði þá duglegri til verka fram á veginn (Forseti hringir.) enda er mjög brýnt að koma sérstaklega að húsnæðisvanda ungs fólks, sem ég ætla að koma inn á betur í síðari ræðu.