149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem við hefðum kannski átt að taka úti í ráðhúsi því að þar fer lóðaúthlutun fram. Lóðaúthlutanir hafa undanfarið í nokkuð mörg ár undir forystu Samfylkingarinnar og núna með hjálp Viðreisnar, Pírata og fleiri verið til háborinnar skammar. Hér hefur verið lóðaskortur af mannavöldum og þær fáu lóðir sem gefist hafa hafa verið seldar í brask með byggingarfélögum og stórgróðamönnum. Nú er búið að byggja svo margar íbúðir í Reykjavík fyrir auðmenn að auðmennirnir eru ekki nógu margir til að kaupa þær. Það er offramboð á auðmannaíbúðum í Reykjavík, en á sama tíma er skortur á íbúðum fyrir venjulegt fólk og þá sérstaklega ungt fólk. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með því að úthluta lóðum eins og hefur reyndar verið gert í nágrannasveitarfélögum, t.d. var fleiri lóðum úthlutað í Mosfellsbæ en í Reykjavík eitt árið. Það sýnir metnað höfuðborgarinnar.

Þessi lóðaskortur er af mannavöldum og það er hægt að leiðrétta hann. Það er hægt að taka svæði bæði í Úlfarsárdal og Geldinganesi og þar er hægt að skipuleggja byggð þar sem ungt fólk getur haslað sér völl.

Í miðju þessu grípur ríkisstjórnin til þess úrræðis að henda út séreignarsparnaðinum sem einmitt hefði átt að gagnast ungu fólki sem er að safna sér fyrir fyrstu kaupum, sérstaklega vegna þess að, eins og hér hefur komið fram, fyrstukaupaaldurinn er hærri og menn koma með góða greiðslugetu úr námi til að byggja sér þak yfir höfuðið. Hins vegar eru tvö atriði sem við verðum að leiðrétta til að ungt fólk vilji á annað borð byggja á Íslandi. Annað er að lækka helvítis vaxtaokrið, afsakið, herra forseti, og að taka af verðtrygginguna í eitt skipti fyrir öll. Það þarf bara kjark í að vinda sér í það mál. Hitt er að það er ekki hægt að ætlast til þess að ungt fólk flytji heim til Íslands þegar því bjóðast vextir upp á (Forseti hringir.) 1,5–2,5% óverðtryggð lán þar sem það býr. Við getum ekki reiknað með að það vilji koma í þennan þrældóm.

Með því að leiðrétta þetta þannig að ríkisstjórnin taki á sig rögg og taki undir það sem Miðflokkurinn sagði í haust um að halda áfram með séreignarsparnaðinn og með því að hér verði úthlutað nægum lóðum (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk getum við snúið þessu við. Til þess þarf bara kjark.