149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu.

400. mál
[17:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar í síðari innkomu minni að nefna þætti sem ég staldraði aðeins minna við hér í fyrri ræðu en það er sú staðreynd að líkur á ristli aukast verulega með hækkandi aldri, en talið er að um 20% allra fái ristil einhvern tímann á lífsleiðinni og sumir oftar en einu sinni. En áreiðanlegar tölur um faraldsfræði, bæði hlaupabólu og ristils, eru sjaldan aðgengilegar þar sem þessir sjúkdómar eru ekki, eða yfirleitt ekki, tilkynningarskyldir. Þó að hlaupabóla sé yfirleitt talin vægur sjúkdómur, og það er kannski það sem við erum fyrst og fremst að tala um hér, er ljóst að hún getur verið alvarleg, einkum hjá fullorðnum og einstaklingum sem eru ónæmisbældir. Alvarlegar afleiðingar hlaupabólu eru og geta verið bakteríusýkingar í húð og lungna- og heilabólga af völdum veirunnar og verða oftast hjá einstaklingum sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Við sjáum líka alvarlegar afleiðingar ristils hjá rosknum einstaklingum, taugaverkur í kjölfarið sem sést hjá rúmlega 30% þeirra einstaklinga sem fá ristil. Aðrar alvarlegri afleiðingar eru líka fyrir hendi. Það er því algerlega skýrt og vafalaust að aðgerð af þessu tagi, bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu, væri jákvæð aðgerð fyrir miklu fleiri en börn og fjölskyldur þeirra og hefði jákvæð heilsufarsáhrif í miklu víðari skilningi.

Ég vil þó nota tækifærið hér að lokum til að taka undir það sem hv. þingmaður segir hér, að lykilatriðið er að auka jafnræði barna og að fólk og ekki síst börn eigi betra og skýrara aðgengi að góðri heilsu óháð efnahag.