149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

raddheilsa.

510. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þegar maður veltir fyrir sér hvort þetta sé lýðheilsuvandamál, þ.e. veilur í röddinni, og hvort raddheilsa sé almennt lýðheilsa held ég að svo sé og ég held að það sé alveg ástæða til að velta því fyrir sér og skoða betur hvort við getum tekið þetta inn eða hvernig það gæti verið hægt. Mér finnst umræddur dómur segja að þetta sé viðurkenning á röddinni sem atvinnutæki.

En ég tek undir með hv. ráðherra að vissulega er margt til og margir bæklingar og ýmislegt fræðsluefni og annað slíkt. Eins og hún kom réttilega inn á hafa byggingarreglugerðir varðandi hljóðvist bygginga breyst, komið hafa til stærri stofur, stærri skólastofur, stærri námshópar og annað. Slíkt hefur breyst.

Valdís Jónsdóttir, sem er talmeina- og raddfræðingur, hefur fjallað mikið um þetta og gerði m.a. doktorsverkefni þar sem hún skoðaði notagildi magnarakerfis í kennsluumhverfi. Þar voru niðurstöðurnar alveg sláandi þar sem fram kom ekki bara það að megnið af börnum og ungmennum heyrði það sem kennararnir voru að segja, heldur dró verulega úr raddþreytu kennaranna.

Það þekkir maður hafandi starfað inni í skólastofu þar sem eini mælikvarðinn var eyra á vegg sem átti að verða rautt ef of mikill hávaði varð, og það var stöðugt rautt. Það er eitt sem hægt væri að nota til að bæta úr í hljóðvistinni í umhverfinu en það er ekki alveg alltaf nægjanlegt. Ég er líka með fyrirspurn til menntamálaráðherra varðandi þennan þátt málsins.

Ég tek undir með ráðherra og er ánægð með svörin í sjálfu sér. En ég held að við eigum að vera mjög vakandi gagnvart þessu atvinnutæki okkar og margra annarra. Það er ekki gott ef við (Forseti hringir.) förum að missa fólk úr kennslu, ekki bara vegna kulnunar heldur líka vegna raddþreytu.