149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar að nýta þessar tvær mínútur mínar í dag til að rifja upp og fagna skýrslu sem samstarfshópur um undirboð og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði skilaði núna rétt fyrir mánaðamótin, 31. janúar, ef ég man rétt.

Þetta hefur, eins og stundum vill verða í amstri dagsins, ekki farið afskaplega hátt, sem er miður því að þetta er gríðarlega vel unnin vinna og skiptir alveg ofboðslega miklu máli. Ég held að við getum öll, hvar sem við í flokki stöndum, sameinast um þær tillögur sem aðilar vinnumarkaðarins leggja til í þessum samstarfshópi, ásamt fulltrúum stjórnvalda.

Hæstv. félags og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, skipaði starfshópinn og er með skýrsluna í höndunum. Þar er tekið á mjög alvarlegum og mikilvægum málum, eins og kennitöluflakki, því að koma á föstum samráðsvettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar þar sem m.a. verði unnið að aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði — og ekki bara að unnið að þeim heldur á líka að vinna að því að fyrirbyggja slíkar aðgerðir í mjög góðu og virku samráði.

Ein af tillögum hópsins snýr að því að binda í lög skyldu til keðjuábyrgðar um opinber innkaup, sem er líka mikilvægt mál. Að sjálfsögðu tengist þetta allt okkur, en það er eitt sem við þurfum sérstaklega að huga að hér sem löggjafi: Því er velt upp hvort veita þurfi stjórnvöldum lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi. Þá er verið að horfa til þvingunarúrræða og stjórnvaldsviðurlaga.

Forseti. Ég geri mér grein fyrir að það eru bara örfáir dagar síðan skýrslan kom út en við hljótum að geta tekið saman höndum um að vinna úr henni, ég treysti því að hæstv. ráðherra sé að gera það, og náð samstöðu um að þessar mikilvægu og góðu tillögur verði að veruleika.