149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna vegna þess að hér hefur allt öðru verið haldið fram. Það er mjög bagalegt, þrátt fyrir að við virðum að trúnaður ríki um það sem sagt er og gert er, alla vega sagt, af einstaklingum á nefndarfundum, að fólk kannaðist ekki við þetta. Ítrekað hefur komið fram í ræðum þess að þetta hafi verið með mjög skömmum fyrirvara og átt að eyðast út.

Annað sem hefur verið rætt er réttlæting gjaldtökunnar ef til er önnur leið, eins og til að mynda í Hvalfjarðarleiðinni. Ég man að ég og hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar ræddum á sínum tíma hversu langt væri að fara fyrir Hvalfjörðinn af Vesturlandi, sem valkost við Hvalfjarðargöngin, og hvort það jafnaðist ekki á við það ef þú værir að fara af Suðurnesjum eða á Suðurlandi að fara Suðurstrandarveginn og Krýsuvíkurleiðina. Er ekki þar með annar valkostur (Forseti hringir.) jafngildur í þeirri umræðu eins og var um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma?