149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Líkt og ég hef nokkrum sinnum áður gert ætla ég að nota þennan vettvang til þess að ræða kjarnorkuafvopnunarmál. Fregnir hafa borist af riftingu Bandaríkjanna á samningi um meðaldrægar kjarnaflaugar, m.a. á þeim forsendum að Rússar brjóti nú þegar gegn samningnum. Þetta er einhver mikilvægasti afvopnunarsáttmáli sem gerður hefur verið en hann var einmitt gerður á milli þessara tveggja þjóða, Rússa og Bandaríkjamanna, og gekk út á það að heilli tegund af flokki kjarnorkuvopna yrði eytt.

Á umliðnum 30 árum eða svo hafa Bandaríkjamenn, í skjóli þessa samnings, eytt u.þ.b. 850 flaugum og Rússar u.þ.b. 1.850 flaugum og hefur það að sjálfsögðu gert heiminn allmiklu öruggari. Þeir einu sem græða á því að svona samningi sé rift eru þessar stóru kjarnorkuþjóðir sem og framleiðendur kjarnavopna. Á sama tíma og þetta vígbúnaðarkapphlaup er í gangi hafa aðrar þjóðir heims tekið sig saman um að vilja útrýma kjarnorkuvopnum og hafa lagt til tillögu að ályktun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þess efnis að kjarnorkuvopn verði bönnuð.

Ég lagði fram þingsályktunartillögu, sem var útbýtt hér 14. janúar sl., um að Ísland gerist aðili að þessu banni um kjarnorkuvopn. Ég vona svo sannarlega að nú fari þetta mál að komast á dagskrá. Ef ekki núna, hvenær er þá tíminn til að ræða um stöðu kjarnorkuvopna í heiminum? Þetta er því miður það sem er heitast í þessum málum í dag.