149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Okkur er svolítið tamt að tala hér eins og það séu fyrst og fremst stóru úrlausnarmálin, sem eru svo flókin að erfitt er að ná sómasamlegri lendingu, sem eigi skilið athygli okkar, allan tíma okkar, umræður og orku. Almenningur, umbjóðendur okkar, er að kljást við alls konar mál alla daga og þegar þess þarf þá á það fólk líka stuðning okkar skilinn í þeim málum.

Ég hef undanfarið fylgst með baráttu fatlaðs manns fyrir því að fá að njóta sjálfsagðrar akstursþjónustu. Viðkomandi hefur um nokkurt skeið búið á hjúkrunarheimili vegna fötlunar sinnar og notið akstursþjónustu fatlaðra. Síðan rennur 67. afmælisdagurinn upp. Þá, eins og fyrir töfra, á þessi einstaklingur ekki rétt á akstursþjónustu fatlaðra. Þar er vísað á hjúkrunarheimilið. Hjúkrunarheimilið segir: Nei, við borgum þetta ekki. Getið þið hvað? Það vísar á akstursþjónustu fatlaðra. Þannig að til viðbótar við skerta þjónustu, ómögulegar og óboðlegar aðstæður þarf viðkomandi maður að búa við það að fá misvísandi ónýt svör þegar hann leitar lausna. Vandamálið er þar með komið í fangið á þeim sem kerfið á að hjálpa.

Nú er það svo að við getum aldrei búið til kerfi sem bregst við öllum aðstæðum og mannlegum fjölbreytileika alltaf og alls staðar, og það er skiljanlegt. En við getum gert betur og meðan við erum að laga þennan kerfislæga galla getum við búið til samfélag sem tekur málstað manneskjunnar fram fyrir það þegar kerfið segir nei. Þetta þarf einfaldlega að laga.