149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

[10:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil taka undir hvert orð hæstv. menntamálaráðherra, það er frábært að sjá þessar jákvæðu umsagnir sem hafa verið að koma inn. Ég hef séð það sjálf í meðförum nefndarinnar á málinu og tek undir það að vissulega er þetta eitthvað sem við ættum að skoða í meðförum nefndarinnar og það má svo sem útvíkka líka þessa hugsun yfir á önnur svið. En ég velti fyrir mér einni athugasemd sem hefur komið fram í umsögnum við málið og hvort við hæstv. menntamálaráðherra séum ekki sammála um að í því máli þurfi að gera bragarbót. Það varðar samráð við fulltrúa ungs fólks, samráð við fulltrúa barna við gerð lagasetningar sem þessarar. Auðvitað er þetta ekki eina málið þar sem það á við, t.d. er núna aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þar skortir líka upp á samráð við börn, samráð við ungt fólk sem löggjöfin á við um.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. menntamálaráðherra hafi einhverjar hugmyndir um hvernig megi betur standa að slíku samráði í framtíðinni. Umboðsmaður barna hefur bent á að það hafi skort (Forseti hringir.) upp á samráð við talsmann barna við gerð frumvarpsins, og við hyggjumst gera bragarbót á því innan nefndarinnar, en ég spyr hvort hún hafi einhverjar hugleiðingar um það hvernig við stöndum betur að þessu í framtíðinni og heyrum sjónarmið barna (Forseti hringir.) þegar við semjum lög um þau.