149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fagna þeim áherslum sem komu fram hjá ráðherra sem minnti okkur á að unnið sé að nýsköpunarstefnu í Stjórnarráðinu, sem er löngu tímabært og vonandi að við náum að hrinda henni í framkvæmd sem fyrst. Þegar hún lítur dagsins ljós vona ég að við tökum sérstaklega á sjóðakerfinu. Mig langar að nefna tvo þeirra sem dæmi. Rannsóknasjóður úthlutaði nú í janúar 61 styrk sem er 17% hlutfall miðað við fjölda umsókna. Nýsköpunarsjóður námsmanna veltir 80 milljónum á ári til að styrkja nemendur sem sinna grunnrannsóknum í sumarvinnu. Með því að stórefla þessa tvo sjóði eina sér myndum við ná að búa til mjög frjóan jarðveg fyrir unga vísindamenn til að fara að skapa, þróa og nýskapa.

Mig langar örlítið að víkja að hlutverki hins opinbera við að fóstra grunnrannsóknir sem e.t.v. myndu ekki njóta framgangs í höndum einkaaðila. Hagnýtingarmöguleikinn stendur nefnilega stundum í vegi fyrir rannsóknum sem eru mjög mikilvægar þegar upp er staðið. Símarnir sem við erum með í vösunum væru ekki til án rannsókna opinberra háskóla í Bandaríkjunum. Sílikondalurinn væri hálftómlegur án opinbers fjár.

Eitt örstutt varðandi það hvernig hið opinbera getur með sinni nýsköpun lagt lóð á vogarskálarnar: Orð mín hér fara eftir að ég lýk máli mínu í vinnslu í tölvu Alþingis í gegnum talgreini. Það er ótrúlega spennandi þróun (Forseti hringir.) þar sem þessi fánýta auðlind sem malið í okkur kann að virðast vera fer í gegnum mylting og verður að jarðvegi fyrir nýsköpun á sviði máltækni, sem er eitt af þeim sviðum sem Ísland þarf að leggja mikla áherslu á.