149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þessa mikilvægu umræðu um nýsköpun og hæstv. ráðherra þakka ég fyrir innlegg hennar og ég ætla um leið að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að taka af skarið með þá stefnumótunarvinnu sem er í gangi í hennar ráðuneyti.

Ef rýnt er í fjárlög undanfarin ár höfum við verið að setja meira fé til rannsókna og þróunar, bæði í gegnum sjóði og með ívilnandi aðgerðum, og mér finnst skilningur á mikilvægi nýsköpunar fyrir verðmætasköpun og ekki síður fyrir aðkomu stjórnvalda vera að aukast. Hæstv. ráðherra kom inn á tvo mælikvarða, vísbendingu um hvar við stöndum gagnvart öðrum þjóðum, landsframleiðslumælikvarðann þar sem við erum rétt yfir meðaltali Evrópuþjóða en eigum þó nokkuð í land með að ná 3% markmiði Vísinda- og tækniráðs. Hins vegar er heimslisti nýsköpunar, Global Innovation Index, forseti, þar sem við skörum síst fram úr. Við erum í 23. sæti og langt á eftir þjóðum sem við gjarnan vildum flokka okkur með. Hvað veldur? Skortur á fjárframlögum? Skortur á ívilnandi aðgerðum? Þekkingarskortur? Smæð hagkerfisins, skilvirkni fjármagnsins og eftirfylgni verkefna, veikir innviðir eða er það skortur á stefnu að við erum ekki nær þjóðum á borð við Svíþjóð, Noreg og Danmörku? Ég held að hluti af því sé að skýra, opinbera stefnu hefur vantað.

Vinna ráðherra er því fagnaðarefni og hæstv. ráðherra ræddi stuðningsumhverfið og betri nýtingu fjármagnsins og að efla samvinnu opinbera geirans, þar með talið sveitarfélaganna og einkageirans, atvinnulífs, stofnana og skóla. Ég er sammála hæstv. ráðherra en til þess þurfum við stefnu og aðferðafræði á borð við opinbera klasastefnu sem m.a. þær þjóðir sem ég taldi upp hafa beitt með mjög árangursríkum hætti.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé hluti af þessari stefnumótunarvinnu (Forseti hringir.) sem er í gangi og hvet um leið hæstv. ráðherra til að huga að opinberri klasastefnu.