149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

tilkynning.

[13:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemdir við fundarstjórn forseta og ef hann vill rýmka ræðutíma hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar uni ég því ágætlega. Ég lít hins vegar ekki á það sem fordæmi, hvorki gagnvart því að orð standi né að vald forseta í svona tilvikum sé virt. Það sem hér gerðist í gær var að forseti lýsti áformum sínum, þegar atkvæðagreiðsla var um lengd fundar, um að við myndum ljúka umfjöllun og afgreiðslu þessa máls áður en kjördæmavika hæfist. Við því hreyfði enginn andmælum. Það var löng mælendaskrá og ljóst að hér gæti þurft að funda mjög langt inn í kvöldið eða nóttina til að ljúka umræðunni. Þess vegna fóru menn að ræða hér undir kvöldmat um hvort betur færi á því að þeir töluðu í gærkvöldi sem þyrftu að tala en síðan yrði samið um lok umræðunnar, eins og iðulega er gert, að henni lyki með vel skipulagðri umferð þar sem talsmenn allra flokka fengju orðið. (Forseti hringir.) Þetta féll í góðan jarðveg og þetta samþykktu allir formenn þingflokka, að vísu hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson með þeim hætti sem hann hefur hér lýst, (Forseti hringir.) að ég sá að hann var genginn inn í samkomulagið. Ég sá það m.a. á mælendaskránni. Ég lít (Forseti hringir.) það mjög alvarlegum augum ef ekki er hægt að byggja í (Forseti hringir.) góðri trú á samkomulagi um svona hluti.