149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

samstarf við utanríkismálanefnd um öryggismál.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að við séum öll sammála um þetta. Ég held að við séum öll sammála á Alþingi um að mjög mikilvægt sé að hafa gott samráð, ekki síst á sviði utanríkismála. En ég veit ekki betur en að það hafi verið gert. Brexit hefur margoft verið til umræðu hjá utanríkismálanefnd Alþingis. Hér hefur verið gefin út sérstök skýrsla af hálfu utanríkisráðherra um þau mál og málið hefur ítrekað verið tekið fyrir á vettvangi nefndarinnar. Við vitum líka — hv. þingmaður hefur spurt mig að þessu áður en ég held að hún geti ekki kastað þeim bolta yfir til íslenskra stjórnvalda — að enn er töluverð óvissa af hálfu breskra stjórnvalda um hvernig þau mál enda, en íslensk stjórnvöld geta ekki tekið ábyrgð á þeirri óvissu þó að hv. þingmaður hafi skotið því að okkur hér um daginn. Auðvitað er það mikilvægt og ekki síst á sviði utanríkismála.

Ég nefndi þjóðaröryggisstefnuna um daginn en fulltrúar allra flokka tóku þátt í þeirri vinnu í langan tíma. Merkilega góð samstaða náðist og algjör samstaða um marga þætti hennar. Þannig eigum við sérstaklega að vanda okkur, (Forseti hringir.) ekki síst á sviði alþjóðamála og utanríkismála. Ég vil að það samráð sé gott, ég er sammála hv. þingmanni um það og ég held að við séum öll sammála um það.