149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Öfugt við flesta aðra þingmenn sem hér hafa talað ætla ég ekki að þakka fyrirspyrjanda sérstaklega fyrir þessa sérstöku umræðu. Ég veit ekki af hverju hún er núna. Fyrirspyrjandinn er í nefnd til að fara yfir þetta og hans flokkur. Hæstv. forsætisráðherra hefur upplýst alla um ganginn og við vitum alveg hvað er að gerast. Það er einhver allt annar tilgangur með þessari sérstöku umræðu núna.

Það vantar alveg að ræða sérstaklega í umræðunni hvað eigi heima í stjórnarskrá. Um hvað er stjórnarskrá, hvað á heima þar? Þar á auðvitað heima stjórnskipan landsins og grundvallarreglur sem við erum ekki að breyta hér dagsdaglega með lögum og eru ekki hluti af daglegri pólitík. Það á heima í stjórnarskrá en einhvern veginn eru margir flokkar með þá hugmynd að þeir þurfi að koma sínum hugðarefnum og stefnumálum inn í stjórnarskrá. Það er alveg sérstök íslensk uppfinning að það hafi þurft að kollvarpa íslensku stjórnarskránni af því að einhverjir bankar hrundu. Við erum enn í þessari umræðu eins og stjórnarskránni hafi aldrei verið breytt og aldrei verið endurskoðuð. Það er mörgu búið að breyta, hún hefur tekið miklum breytingum, öll mannréttindaákvæðin, vissar breytingar á stjórnskipan landsins. Hún hefur verið í stöðugri endurnýjun og endurskoðun og tekið breytingum.

Auðvitað má breyta ýmsu. Ég er sérstakur áhugamaður um að fara yfir kaflann um forsetaembættið. Enginn virðist vita hvaða völd forsetinn hefur í raun. Það koma alltaf nýjar hugmyndir í hvert sinn sem kemur nýr forseti um hvaða vald hann hefur. Það þarf að endurskoða þetta og fara yfir þetta. Auðvitað þarf að koma þjóðaratkvæði að í stjórnarskránni og líka framsali á valdi ef við ætlum að vera áfram í EES-samningnum. Þetta þarf að gera, (Forseti hringir.) en um gjörbreytingu með nýrri hugmyndafræði og nýrri pólitík í stjórnarskrá núna mun aldrei nást nein sátt. Það verður bara vesen.