149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

45. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Álitið er frá allsherjar- og menntamálanefnd, eins og fram kom í máli forseta.

Nefndin hefur fjallað um málið á þó nokkrum fundum. Á þá komu Sverrir Jónsson og Sara Lind Guðbergsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands og Hrannar Már Guðmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Nefndinni bárust umsagnir frá Fjölmenningarráði Reykjavíkurborgar, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og Viðskiptaráði Íslands.

Málið hafði áður verið flutt og höfðu þá borist umsagnir frá fleiri aðilum. Vil ég nefna sérstaklega Skógræktina, Mannréttindastofu Íslands, Háskólann á Hólum til viðbótar við það sem hér er.

Með frumvarpinu er lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, verði felldur brott. Þar segir að til þess að fá skipun eða ráðningu í starf þurfi viðkomandi að hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum. Þegar sérstaklega stendur á megi þó víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara.

Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins. Samhljómur var um markmið og tilgang þess.

Rétt er að taka fram að samkvæmt 52. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal við samningu stjórnvaldsfyrirmæla samkvæmt lögum þessum, annarra en verklagsreglna, svo og við endurskoðun þeirra, jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Alþýðusambandi Íslands kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau sem upp kunna að koma.

Með því að afla umsagna og fá umrædda aðila á fund nefndarinnar, og einnig við fyrri flutning þess á síðasta þingi, lítur nefndin þannig á að þessari samráðsskyldu hafi verið sinnt. Þar sem umræddir aðilar gera engar athugasemdir og lýsa sig þvert á móti fylgjandi frumvarpinu sé óhætt að halda áfram með málið.

Við meðferð málsins nú og þegar frumvarpið var lagt fram á 146. löggjafarþingi og 148. löggjafarþingi hefur bandalögum opinberra starfsmanna samkvæmt 52. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gefist kostur á að skila inn umsögn vegna málsins og að mæta á fund nefndarinnar. Bandalögin gera engar athugasemdir við efni frumvarpsins. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin að samráðsskyldu við bandalögin hafi verið gætt.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að þótt umrætt skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt félli brott úr lögunum yrði enn heimilt að setja ákveðin hæfisskilyrði þegar störf væru auglýst. Nefndin áréttar að ávallt þurfi að líta til eðlis starfa við setningu slíkra skilyrða. Þannig geti sum störf verið þess eðlis að gera þurfi þá efnislegu kröfu að viðkomandi hafi fullkomið vald á íslensku til að geta sinnt starfinu. Að öðru leyti hafi frumvarpið ekki í för með sér efnislega breytingu eða breytingar á öðrum lögum.

Þess vegna er það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Öll nefndin stendur að álitinu og er það afskaplega gleðilegt. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. allsherjar og menntamálanefnd, og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Páli Magnússyni, fyrir að greiða götu þessa máls. Mér sýnist að mjög góður samhljómur ætti að geta orðið um það hér í þinginu að afgreiða það og gera að lögum frá Alþingi.